Daði Ómarsson sigraði á óvenjuspennandi Þriðjudagsmóti



Mikið var um að vera í vikunni; Opna Íslandsmót kvenna hófst á mánudag og HM í Fischer-slembiskák á þriðjudag. Og auðvitað Þriðjudagsmót TR i atskák.

Baráttan þar varð tvísýn og meira spennandi en kannski hefði mátt ætla; stigahæsta keppandanum, Daða Ómarssyni, varð á handvömm í vænlegri og krítískri stöðu og tapaði fyrir Brynjari Bjarkarssyni í 2. umferð. Þannig kom upp sú staða fyrir síðustu umferð að sex efstu keppendur höfðu allir misst heilan vinning (ýmist með tapi eða jafnteflum) og áttu möguleika á efsta sætinu. Þetta voru þeir Daði Ómarsson, Torfi Leósson, Gauti Páll Jónsson, Kristján Halldórsson, Kristófer Orri Guðmundsson og Birkir Hallmundarsson.

Úrslit á mótinu réðust síðan í innbyrðis viðureignum þeirra á milli og þar varð Daði Ómarsson hlutskarpastur með því að leggja Torfa Leósson að velli. Í öðru sæti varð siðan Birkir Hallmundarsson sem fékk, með sigri á Kristófer Orra, líka verðlaunin fyrir bestan árangur miðað við stig. Birkir hlaut 2. sætið af því eitt af viðmiðunum fyrir stigaútreikning jafnra keppenda á Þriðjudagsmótum, er fjöldi unninna skáka; þannig gildir ein unnin skák meira en tvö jafntefli í stigaútreikningi.Dadi_TR3 Rauðglóandi

Öll úrslit og stöðu Þriðjudagsmótsins má annars nálgast hér á chess-results.

Næsta mót verður 1. nóvember og hefst, eins og jafnan, stundvíslega klukkan 19:30, í Skákhöll TR í Faxafeni. Fimm umferðir; 10 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.