Hið árlega Borgarskákmót Taflfélags Reykjavíkur var haldið í gær í Ráðhúsi Reykjavíkur. Mótið, ásamt Stórmóti Árbæjarsafns og TR markar í raun upphafið að vetrarstarfinu hjá Taflfélagi Reykjavíkur. Mótið er styrktarmót fyrir félagið og keppendur tefla fyrir fyrirtæki sem styrkt hafa Taflfélagið.
Að þessu sinni voru 41 keppendur mættir til leiks. Stigahæsti hraðskákmaður mótsins var FIDE meistarinn Róbert Lagerman. Snemma móts var Róbert í sérflokki ásamt Ólafi B. Þórssyni, Gauti Páli og Óliver Aron. Þessir mættust innbyrðis í fjórðu umferð og þar tók Ólafur forystuna þegar hann lagði Gauta að velli, Róbert og Oliver gerðu jafntefli.
Ólafur lagði Óliver að velli í lykilskák í 5. umferð en hann sneri erfiðu tafli sér í vil í tímahraki. Róbert og Ólafur skildu jafnir í 6. umferð en Davíð Kolka tók sig til og lagði Ólaf að velli í lokaumferðinni.

Davíð lagði Ólaf í lokaumferðinni.
Við þessi úrslit opnaðist mótið upp á gátt og fimm skákmenn enduðu efstir og jafnir með 5,5 vinning úr umferðunum 7. Þar sem Ólafur var við toppinn allt mótið varð hann skiljanlega efstur á oddastigum og sigurvegari Borgarskákmótsins 2025.
Taflfélagið þakkar keppendum og styrktaraðilum!