Benedikt Briem sigraði á gríðar spennandi Bikarsyrpumóti



IMG_8831

Verðlaunahafarnir Batel, Benedikt og Stefán.

Vel skipað og fjölmennt annað mót Bikarsyrpu TR fór fram um helgina og má með sanni segja að spennan hafi náð hámarki í lokaumferðinni því úrslit réðust ekki fyrr en að síðustu skákum lauk. Fyrir sjöundu og síðustu umferð var Benedikt Briem efstur með 5,5 vinning en næst með 4,5 vinning komu Stefán Orri Davíðsson, Örn Alexandersson, Magnús Hjaltason og Batel Goitom.

IMG_8815

Glæsilegir keppendur í fyrsta Bikarmóti stúlkna.

Á fyrsta borði mættust Benedikt og Batel og fór svo að Batel hafði sigur en áður hafði Stefán haft betur gegn Erni og var á þeim tíma efstur. Það átti þó eftir að breytast þegar úrslit annara skáka komu í hús og varð niðurstaðan að lokum sú að Benedikt hlaut efsta sætið eftir stigaútreikning. Stefán Orri og Batel luku leik í öðru og þriðja sæti einnig með 5,5 vinning.

IMG_8828

Óttar Bergmann leikur hér biskupi sínum gegn Bjarti Þórissyni.

Bikarmót stúlkna fór nú fram í fyrsta sinn samhliða Bikarsyrpunni. Fyrirkomulagið var með sama sniði og í Bikarsyrpunni undanfarin tvö ár, þ.e. 5 umferðir tefldar með 30 mín. umhugsunartíma og 30 sek. viðbótartíma fyrir hvern leik.

IMG_8827

Einbeittir keppendur Bikarsyrpunnar.

Skákmótið var sett á laggirnar til þess að hvetja stúlkur til aukinnar þátttöku í skákmótum. Stúlkurnar gátu því valið hvort þær vildu taka þátt í opnu Bikarsyrpunni, sem í vetur hefur 7 umferðir, eða taka þátt í stúlknamótinu með 5 umferðum.

IMG_8830

Jósef Omarsson er orðinn þrautreyndur þrátt fyrir ungan aldur en hann er fæddur árið 2011.

Í þessu fyrsta móti tóku 5 stúlkur þátt, fjórar frá Taflfélagi Reykjavíkur og ein úr Víkingaklúbbnum. Til viðbótar tóku þrjár TR-stúlkur þátt í Bikarsyrpunni sem fram fór á sama tíma. Þetta var mjög skemmtilegt og stelpurnar fengu góða reynslu í því að skrifa niður skákirnar og að tefla með mun meiri umhugsunartíma, en sem tíðkast í flestum barna-og unglingamótum.

IMG_8812

Iðunn Helgadóttir var á meðal keppenda í Stúlknamótinu.

 

Allt var til staðar sem tilheyrir skemmtilegu og lærdómsríku skákmóti: gildrur, gafflar og leppanir sem höfðu sviftingar í för með sér svo og mát í miðtafli og endatafli. Allt fer þetta í reynslubankann!

Úrslitin urðu sem hér segir:

1. Elsa Kristín Arnaldardóttir, TR, 3,5 vinninga af 4.
2. Katrín María Jónsdóttir, TR, 2,5 v.
3. Iðunn Helgadóttir, TR, 2 v.
4. Karen Ólöf Gísladóttir, TR, 1 v.
5. Bergþóra Helga Gunnarsdóttir, Víkingaklúbbnum, 1 v.

Elsa Kristín hlaut bikar í verðlaun, Katrín María fékk silfurmedalíu og Iðunn bronsmedalíu. Allar stúlkurnar fengu bókaverðlaun.

IMG_8818

Benedikt Briem og Batel eigast hér við í lokaumferðinni.

Öll úrslit ásamt lokastöðu má sjá hér að neðan auk mynda frá mótinu.

Við í TR óskum verðlaunahöfum til hamingju og þökkum öllum fyrir þátttökuna. Vonumst til að sjá ykkur sem flest í þriðja móti syrpunnar sem fer fram helgina 2.-4. desember og þá munum við einnig halda áfram með Bikarmót stúlkna. Mótin verða auglýst þegar nær dregur.