Fyrsta laugardagsæfing vetrarins fór fram 13. september. Það voru 11 krakkar sem mættu, bæði ötulir félagsmenn Taflfélags Reykjavíkur svo og nýjir áhugasamir krakkar. Meðal annars voru þarna systkin, bræður og vinkonur að koma í fyrsta skipti! Tefldar voru 6 umferðir með 8 mínútna umhugsunartíma. Eftir þriðju umferð var gert smá hlé á taflmennsku og þátttakendum var boðið upp á djús og kex.
Tilhögunin á laugardagsæfingunum verður þannig í vetur, að gefin verða stig fyrir frammistöðu og ástundun, og síðan verða veitt verðlaun í vor. Þannig gefur 1. sæti í æfingamótinu 4 stig, 2. sæti gefur 3 stig, þriðja sæti gefur 2 stig og aðrir fá 1 stig fyrir mætingu. Að sjálfsögðu verður mikið teflt á laugardagsæfingunum en einnig mun alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason vera með skákþjálfun.
Umsjón með laugardagsæfingunum skipta þau með sér þau Elín Guðjónsdóttir, Magnús Kristinsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir, sem öll eru í stjórn Taflfélags Reykjavíkur og mynda ásamt Torfa Leóssyni barna -og unglinganefnd T.R.
Þá koma hér úrslit og stig eftir fyrstu æfinguna.
1. sæti Eiríkur Örn Brynjarsson, 6 vinninga af 6. Samtals 4 stig
2. sæti Stefanía Stefánsdóttir, 5 vinninga. Samtals 3 stig.
3. sæti Vilhjálmur Þórhallsson, 4 vinninga. Samtals 2 stig.
Allir hinir þátttakendurnir eru með 1 stig fyrir mætingu á þessari fyrstu laugardagsæfingu.
Í stafrófsröð eru það þau: Figgi Truong, Guðni Stefánsson, Hróðný Rún Hölludóttir, Josef Ómarsson, María Ösp Ómarsdóttir, Mariam Dalia Ómarsdóttir, Veronika Magnúsdóttir og Yngvi Stefánsson.
Sjáumst næsta laugardag kl.14-16! Húsið opnar kl. 13.40.
Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir