Bárður Örn Unglingameistari og Esther Lind Stúlknameistari Reykjavíkur



IMG_8014

Barna-og unglingameistaramót Reykjavíkur sem og Stúlknameistaramót Reykjavíkur fór fram í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur sunnudaginn 21. febrúar. Mótið var opið fyrir börn á grunnskólaaldri.

Þrenn verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin í mótinu, þrenn verðlaun fyrir efstu stúlkur og svo aldursflokkaverðlaun í hvorum flokki fyrir sig (fædd 2000-2001, 2002-2003, 2004-2005, 2006-2007 og 2008 og síðar). Þau sem eru búsett í Reykjavík eða eru félagar í reykvískum taflfélögum tefldu um titilinn Unglingameistari Reykjavíkur 2016 og Stúlknameistari Reykjavíkur 2016. Tefldar voru 7 umferðir með 15 mín. umhugsunartíma á skák í hvorum flokki fyrir sig. Mótið var reiknað til atskákstiga.

IMG_7979

Þátttakendur voru 52 og var mótið vel skipað. Mörg af efnilegustu börnum og unglingum landsins voru með á mótinu.

Í opnum flokki komu bræðurnir Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir hnífjafnir í mark með 6,5 vinning. Stigaútreikningur sýndi að Bárður Örn var hærri á stigum og því hlaut hann 1. sætið og er Unglingameistari Reykjavíkur 2016. Björn Hólm hreppti silfrið, en síðan komu sex drengir með 5 vinninga, þeir Dawid Kolka, Þorsteinn Magnússon, Aron Þór Mai, Mykhaylo Kravchuk, Kristján Dagur Jónsson og Bjarki Kjartansson. Stig réðu einnig úrslitum hér og varð Dawid Kolka í 3. sæti.

IMG_8010

Í Stúlknameistaramótinu tóku 10 stelpur þátt. Esther Lind Valdimarsdóttir kom þar, sá og sigraði með fullu húsi! Esther Lind byrjaði að sækja stúlknaæfingar í Taflfélagi Reykjavíkur í haust og hefur einnig reglulega sótt skákæfingar í Salaskóla. Hún er því Stúlknameistari Reykjavíkur 2016. Í 2. sæti varð Freyja Birkisdóttir með 5,5 v. og í 3. sæti varð Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir með 5 vinninga. Þess má geta að fjórar af þeim tíu stelpum sem tóku þátt eru fæddar 2008, þannig að þær eiga framtíðina fyrir sér!

IMG_8005

Báðir titilarnir, Unglingameistari Reykjavíkur 2016 og Stúlknameistari Reykjavíkur 2016 fóru eins og í fyrra til Taflfélags Reykjavíkur.

Skákmótið fór mjög vel fram. Aldursbilið var eins breitt og hægt var, alveg frá 6 ára upp í 16 ára! Þarna voru krakkar að stíga sín fyrstu skref í skákmóti og aðrir með mikla keppnisreynslu. Þó nokkur fjöldi foreldra og systkina fylgdist með og skákmótið gekk samkvæmt tímaáætlun og allt með ró og spekt. Ýmislegt gekk á á reitunum 64 eins og við þekkjum! Allt fer þetta í reynslubankann góða – og verður notað í næsta skákmóti! Sjá heildarúrslit í opnum flokki hér og í stúlknaflokki hér. Aldursflokkaverðlaun eru listuð hér að neðan.

IMG_7978

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þátttakendum og aðstandendum fyrir skemmtilegt skákmót í dag!

Aldursflokkaverðlaun opinn flokkur:

  • U 8: Andri Hrannar Elvarsson
  • U 10: Adam Omarsson
  • U 12: Kristján Dagur Jónsson
  • U 14: Mykhaylo Kravchuk
  • U 16: Bárður Örn Birkisson

Aldursflokkaverðlaun stúlknaflokkur:

  • U 8: Karen Ólöf Gísladóttir
  • U 10: Freyja Birkisdóttir
  • U 12: Esther Lind Valdimarsdóttir
  • U 14: engin stúlka í þessum aldurshópi tók þátt
  • U 16: engin stúlka í þessum aldurshópi tók þátt

Mótshaldari var Taflfélag Reykjavíkur. Skákstjórar voru Þórir Benediktsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Birna Halldórsdóttir sá um veitingar á meðan mótinu stóð.

Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.