Barna-og unglingameistaramót Reykjavíkur sem og Stúlknameistaramót Reykjavíkur fór fram í skákhöll Taflfélags Reykjavíkur sunnudaginn 21. febrúar. Mótið var opið fyrir börn á grunnskólaaldri.
Þrenn verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin í mótinu, þrenn verðlaun fyrir efstu stúlkur og svo aldursflokkaverðlaun í hvorum flokki fyrir sig (fædd 2000-2001, 2002-2003, 2004-2005, 2006-2007 og 2008 og síðar). Þau sem eru búsett í Reykjavík eða eru félagar í reykvískum taflfélögum tefldu um titilinn Unglingameistari Reykjavíkur 2016 og Stúlknameistari Reykjavíkur 2016. Tefldar voru 7 umferðir með 15 mín. umhugsunartíma á skák í hvorum flokki fyrir sig. Mótið var reiknað til atskákstiga.
Þátttakendur voru 52 og var mótið vel skipað. Mörg af efnilegustu börnum og unglingum landsins voru með á mótinu.
Í opnum flokki komu bræðurnir Bárður Örn og Björn Hólm Birkissynir hnífjafnir í mark með 6,5 vinning. Stigaútreikningur sýndi að Bárður Örn var hærri á stigum og því hlaut hann 1. sætið og er Unglingameistari Reykjavíkur 2016. Björn Hólm hreppti silfrið, en síðan komu sex drengir með 5 vinninga, þeir Dawid Kolka, Þorsteinn Magnússon, Aron Þór Mai, Mykhaylo Kravchuk, Kristján Dagur Jónsson og Bjarki Kjartansson. Stig réðu einnig úrslitum hér og varð Dawid Kolka í 3. sæti.
Í Stúlknameistaramótinu tóku 10 stelpur þátt. Esther Lind Valdimarsdóttir kom þar, sá og sigraði með fullu húsi! Esther Lind byrjaði að sækja stúlknaæfingar í Taflfélagi Reykjavíkur í haust og hefur einnig reglulega sótt skákæfingar í Salaskóla. Hún er því Stúlknameistari Reykjavíkur 2016. Í 2. sæti varð Freyja Birkisdóttir með 5,5 v. og í 3. sæti varð Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir með 5 vinninga. Þess má geta að fjórar af þeim tíu stelpum sem tóku þátt eru fæddar 2008, þannig að þær eiga framtíðina fyrir sér!
Báðir titilarnir, Unglingameistari Reykjavíkur 2016 og Stúlknameistari Reykjavíkur 2016 fóru eins og í fyrra til Taflfélags Reykjavíkur.
Skákmótið fór mjög vel fram. Aldursbilið var eins breitt og hægt var, alveg frá 6 ára upp í 16 ára! Þarna voru krakkar að stíga sín fyrstu skref í skákmóti og aðrir með mikla keppnisreynslu. Þó nokkur fjöldi foreldra og systkina fylgdist með og skákmótið gekk samkvæmt tímaáætlun og allt með ró og spekt. Ýmislegt gekk á á reitunum 64 eins og við þekkjum! Allt fer þetta í reynslubankann góða – og verður notað í næsta skákmóti! Sjá heildarúrslit í opnum flokki hér og í stúlknaflokki hér. Aldursflokkaverðlaun eru listuð hér að neðan.
Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þátttakendum og aðstandendum fyrir skemmtilegt skákmót í dag!
Aldursflokkaverðlaun opinn flokkur:
- U 8: Andri Hrannar Elvarsson
- U 10: Adam Omarsson
- U 12: Kristján Dagur Jónsson
- U 14: Mykhaylo Kravchuk
- U 16: Bárður Örn Birkisson
Aldursflokkaverðlaun stúlknaflokkur:
- U 8: Karen Ólöf Gísladóttir
- U 10: Freyja Birkisdóttir
- U 12: Esther Lind Valdimarsdóttir
- U 14: engin stúlka í þessum aldurshópi tók þátt
- U 16: engin stúlka í þessum aldurshópi tók þátt
Mótshaldari var Taflfélag Reykjavíkur. Skákstjórar voru Þórir Benediktsson og Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir. Birna Halldórsdóttir sá um veitingar á meðan mótinu stóð.
Pistill: Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir.