Arnar Ingi með fullt hús á þriðjudagsmóti TR í gær



Miðbæjarskákarfrömuðurinn og fyrrum Verzlingurinn Arnar Ingi Njarðarson var, ásamt reyndar fleiri þátttakendum 23. þriðjudagsmóts TR í gær, funheitur eftir skákmaraþon Miðbæjarskákar á Stofunni á sunnudaginn. Stigahæsti þátttakandinn sem í gær var Helgi Hauksson, notar stundum fyrstu umferðina til að ná vélinni í gang og það nýtti Arnar sér. Hann vann Helga þannig í fyrstu umferð og síðan alla aðra andstæðinga tiltölulega örugglega og hirti þar með fyrsta sætið. Helgi sem var hrokkinn í gang frá og með 2. umferð, náði síðan öðru sætinu af Magnúsi Sigurðssyni með sigri í innbyrðis viðureign í síðustu umferð. 

Lokastöðu að öðru leyti og einstök úrslit má sjá á Chess results 

Þriðjudagsmót fellur niður næstkomandi þriðjudag 26. nóvember vegna lokaumferðar U-2000 mótsins en þriðjudaginn 3. desember hefst Atskákmót Reykjavíkur. Seinni hluti þess fer fram miðvikudaginn 4. desember en alls verða tefldar 9 umferðir (sjá nánar https://taflfelag.is/atskakmot-reykjavikur-verdur-haldid-3-4-desember/).