Arnar Gunnarsson Íslandsmeistari í atskákArnar E. Gunnarsson varð í dag Íslandsmeistari í atskák annað árið í röð þegar hann sigraði Sigurbjörn Björnsson í úrslitaeinvígi þeirra.  Einvígið var sýnt í beinni útsendingu Sjónvarps og tefldu þeir tvær atskákir en ef jafnt yrði eftir þær, myndu úrslitin ráðast í bráðabana þar sem hraðskákir yrðu tefldar.

Sigurbjörn hafði hvítt í þeirri fyrri og beitti hinum vinsæla skoska leik gegn Arnari.  Að venju tefldi Sigurbjörn hvasst og náði öflugri sókn að kóngi Arnars, sem tefldi líkast til full rólega.  Sigurbjörn bauð að lokum upp á drottningarfórn sem Arnar þáði ekki og fljótlega eftir það játaði Arnar sig sigraðan.

Sigurbirni dugði því jafntefli í síðari skákinni og virtist allt stefna í það í rólegri og tilþrifalítilli skák þar sem Arnar hafði hvítt og tefldi svonefnt vængtafl.  Leikar fóru þó að æsast eftir því sem að tíminn á skákklukkunni minnkaði og svo fór að lokum að báðir vöktu upp drottningu.  Þegar Sigurbjörn hafði svo alla möguleika á að þráskáka Arnar lék hann drottningunni af sér í tímahrakinu og þar með var staðan jöfn 1-1 og bráðabana þurfti.

Að þessu sinni var bráðabaninn ein fimm mínútna hraðskák (eða fleiri þar til annar sigrar).  Sigurbjörn hafði hvítt og aftur kom skoski leikurinn upp.  Arnar fékk mun betri stöðu út úr byrjuninni en missteig sig eitthvað fljótlega í miðtaflinu og upp úr því var Sigurbjörn kominn með hartnær unnið tafl.  Sigurbirni fipaðist þó aftur í tímahrakinu og endaði á að leika drottningunni af sér öðru sinni í einvíginu.  Arnar stóð því uppi sem sigurvegari með tvo vinninga gegn einum vinningi Sigurbjarnar.

Stjórn T.R. óskar Arnari til hamingju með sigurinn í skemmtilegu og spennandi einvígi.

  • Útsending Sjónvarps frá einvíginu