Hinn grjótharði Andrey Prudnikov hamrar enn járnið á Þriðjudagsmótum Taflfélags Reykjavíkur með sigri með fullu húsi. Mótið var nokkuð öflugt að þessu sinni og tóku 37 skákmenn þátt þann 5. júlí sem hefði mátt vera saga til næsta bæjar hér í den. En röksemdarfærslur þess eðlis að skák sé einhvers konar vetrarsport halda engu vatni. Skáklífið er blómlegt í sumar. Nóg að gera, til að mynda verður Viðeyjarmótið á sunnudaginn, og svo verða að sjálfsögðu Borgarskákmótið og Árbæjarsafnsmótið í ágúst.
Á myndinni er Andrey að tafli gegn Stefáni Bergssyni á skákmóti Laugardalslaugar hér fyrir skömmu.
Gauti Páll Jónsson hefði getað tryggt sér sigur með sigri gegn Úkraínumanninum í lokaumferðinni. En í flókinni stöðu hafnaði hann þrátefli í tímahraki og lék í beinu framhaldi af sér skákinni í tap eins og stundum gerist. En aðeins þeir fiska sem róa, það skemmtilega við Þriðjudagsmótin er að hér eru allar skákir tefldar í botn, enda engin ástæða til neins annars!
Þrír skákmenn fengu fjóra vinninga, Anton Reynir Hafdísarson, Kjartan Maack og Erik Kato frá Bandaríkjunum. Erik þessi hefur aðeins USCF stig og fékk þess vegna stigaverðlaunin. Frelsi einstaklingsins hlýtur að felast í því að nota ekki einhvers konar “alþjóðlegt” stigakerfi í skákstigaútreikningi!
Sjö skákmenn fengu 3.5 vinning.
Úrslit og stöðu mótsins má sjá á chess-results.