Ef einhver var farinn að sakna óvæntra úrslita þá getur viðkomandi kvatt þann söknuð strax í upphafi nýs sumars því að fjórða umferð Skákmóts öðlinga sparkaði „hefðbundnum“ úrslitum út um gluggann í Faxafeninu. Á fyrsta borði gerði Einar Valdimarsson (1945) sér lítið fyrir og lagði stigahæsta keppanda mótsins, Þorvarð F. Ólafsson (2222), með svörtu mönnunum. Með sigrinum smellti Einar sér einn á toppinn með fullt hús vinninga.
Á öðru borði var það síðan Kjartan Ingvarsson (1838) sem knésetti reynsluboltann Ögmund Kristinsson (2030) með hvítu mönnunum. Kjartan komst með þessum góða sigri í hóp keppenda sem eru í 3.-7. sæti með 3 vinninga en skákdrottningin og geðlæknirinn Guðlaug Þorsteinsdóttir (1943) er ein í öðru sæti með 3,5 vinning eftir hjásetu í fjórðu umferðinni.
Fimmta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og þá hefur Einar aftur svart á fyrsta borði, nú gegn Guðlaugu. Haraldur Baldursson (1984) hefur hvítt gegn Þorvarði á öðru borði og þá eigast við liðsfélagarnir Eiríkur K. Björnsson (1959) og Halldór Pálsson (2030). Það verður blásið í herlúðrana stundvíslega kl. 19.30.
Rétt er að benda á að skákirnar úr mótinu eru aðgengilegar fljótlega eftir hverja umferð en það er hinn röggsami Gauti Páll Jónsson sem gerir okkur kleift að berja þær augum.
Taflfélag Reykjavíkur Elsta og virkasta skákfélag landsins



