Ef einhver var farinn að sakna óvæntra úrslita þá getur viðkomandi kvatt þann söknuð strax í upphafi nýs sumars því að fjórða umferð Skákmóts öðlinga sparkaði „hefðbundnum“ úrslitum út um gluggann í Faxafeninu. Á fyrsta borði gerði Einar Valdimarsson (1945) sér lítið fyrir og lagði stigahæsta keppanda mótsins, Þorvarð F. Ólafsson (2222), með svörtu mönnunum. Með sigrinum smellti Einar sér einn á toppinn með fullt hús vinninga.
Á öðru borði var það síðan Kjartan Ingvarsson (1838) sem knésetti reynsluboltann Ögmund Kristinsson (2030) með hvítu mönnunum. Kjartan komst með þessum góða sigri í hóp keppenda sem eru í 3.-7. sæti með 3 vinninga en skákdrottningin og geðlæknirinn Guðlaug Þorsteinsdóttir (1943) er ein í öðru sæti með 3,5 vinning eftir hjásetu í fjórðu umferðinni.
Fimmta umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og þá hefur Einar aftur svart á fyrsta borði, nú gegn Guðlaugu. Haraldur Baldursson (1984) hefur hvítt gegn Þorvarði á öðru borði og þá eigast við liðsfélagarnir Eiríkur K. Björnsson (1959) og Halldór Pálsson (2030). Það verður blásið í herlúðrana stundvíslega kl. 19.30.
Rétt er að benda á að skákirnar úr mótinu eru aðgengilegar fljótlega eftir hverja umferð en það er hinn röggsami Gauti Páll Jónsson sem gerir okkur kleift að berja þær augum.