Alexander Donchenko efstur á Þriðjudagsmóti



Þýsk-rússneski stórmeistarinn Alexander Donchenko sigraði með fullu húsi á Þriðjudagsmótinu þann 18. maí. Hann er hér á landi eftir að hafa keppt á fyrsta borði með Skákfélagi Selfoss og nágrennis síðustu helgi. Í öðru sæti varð Gauti Páll Jónsson án þess þó að hafa mætt stigahæstu mönnum mótsins: Gerði jafntefli við Guðmund Edgarsson í fyrstu umferð! Þriðji varð nýjasti stórmeistari þjóðarinnar, Guðmundur Kjartansson. 27 skákmenn mættu til leiks á mótið, sem er líklega met.

18.5mynd3 18.5mynd2

Til viðbótar við stórmeistara og önnur stórmenni er algengt að menn sem hafa ekki telft mikið undanfarin ár (að minnsta kosti í raunheimum), noti Þriðjudagsmótin til að endurnýja kynnin við tafl- og skákmenn. Einnig er auðheyrt að margir sem mæta eru jafnvel að reyna fyrir sér í raunheimataflmennsku í fyrsta sinn. Margir úr þessum tveimur hópum tóku þátt í gær; efstur stigalausra (enn sem komið er) varð Guðmundur Edgarsson í 8. sæti en stigahástökkvari mótsins var hins vegar ungstirnið í 7. sæti, Benedikt Þórisson með 3 vinninga og stigaviðbót upp á 34 ELO, takk fyrir.

Önnur úrslit og lokastöðu má annars sjá á chess-results.

Guðjón Heiðar segir keppendum sannleikann

Guðjón Heiðar segir keppendum sannleikann

Næsta Þriðjudagsmót verður 25. maí. Taflið hefst að venju 19:30 og tímamörk eru 15 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími. Í ljósi áhuga á mótunum verða í sumar (þ.e. í júní, júlí og fyrri hluta ágúst) Þriðjudagsmót í TR aðra hverja viku eins og sjá má í frétt um sumardagskrá.

Að lokum viljum við taka fram að stjórn Taflélags Reykjavíkur hefur tekið ákvörðun um að orðið “Þriðjudagsmót” sé sérnafn. Hér eftir og hingað til verður því notast við stórt þorn þegar skrifað er um Þriðjudagsmót!

Donchenko að tafli á Íslandsmóti skákfélaga. Mynd: Ómar Óskarsson

Donchenko að tafli á Íslandsmóti skákfélaga. Mynd: Ómar Óskarsson