Æskan og Ellin fer fram á sunnudaginn



ÆSKAN OG ELLIN - BORÐI 2019 2447x773

ÆSKAN OG ELLIN – skákmótið þar sem kynslóðirnar mætast,  verður haldið á sunnudaginn kemur, þann 20. október,  í Skákhöllinni í Faxafeni.

TAFLFÉLG REYKJAVÍKUR og RIDDARINN, skákklúbbur eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu með stuðningi JÓA ÚTHERJA – leiðandi fyrirtækis á sportvörumarkaði – standa saman að mótshaldinu.  Mótið hefur eflst  að  vinsældum með árunum og skipar nú fastan sess í skáklífinu.

Mótið fer nú fram í 16. sinn. Fyrstu 9 árin var mótið haldið í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, þar sem Riddarinn hefur aðsetur sitt og eldri skákmenn hittast til tafls vikulega allan ársins hring, en nú síðustu 7 árin í samsstarfi við TR- elsta og öflugasta taflfélag landins.   Þessi mót – þar sem kynslóðirnar mætast – hafa jafnan verið fjölsótt jafnt af yngri sem eldri skákmönnum og afar vel heppnuð. Yfir  80 ára aldursmunur er hefur iðulega verið milli yngsta og elsta keppandans.

Þátttaka í mótinu er ókeypis og miðast við börn og ungmenni á grunnskólaaldri 15 ára og yngri, og roskna skákmenn 60 ára og eldri. Mótið hefst kl. 13 og verða tefldar 9 umferðir með 6 mínútna umhugsunartíma auk 2 sekúndna viðbótartíma eftir hvern leik (6+2).

Vegleg verðlaun og viðurkenningar.   Auk aðalverðlauna verða veitt aldursflokkaverðlaun í 3 flokkum ungmenna og öldunga.  Annars vegar fyrir þrjú efstu sæti í barna og unglinga-flokkum, 9 ára og yngri; 10-12 ára og 13-15 ára og hins vegar fyrir efstu menn í 3 öldunga-flokkum, 60-69 ára; 70-79 ára og 80 ára og eldri.  Auk þess fær sú yngismær sem bestum árangri nær og yngsti og elsti keppandi mótsins sérstök þakkarverðlaun

Mótsnefnd skipa þeir Einar S. Einarsson,  erkiriddari/formaður Riddarans, Ríkharður Sveinsson, formaður TR, og Þórir Benediktsson, hirðmaður.

Skráning til þátttöku fer fram í skráningarformi á www.skak.is og www.taflfelag.is.  Hámarksfjöldi keppenda miðast við 80 og því mikilvægt að skrá sig sem fyrst og/eða mæta tímanlega á mótsstað. Hér má sjá lista yfir skráða keppendur.

a1a2