Æskan og ellin: Alexander Oliver Mai hlutskarpastur



IMG_9468

Það var mikið um dýrðir í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur síðastliðinn laugardag er erkiriddarinn, Einar S. Einarsson, sló upp stórmótinu Æskan og ellin í fjórtánda sinn. Venju samkvæmt höfðu þeir þátttökurétt sem annað hvort voru 15 ára og yngri eða 60 ára og eldri. Þessi hugarsmíð Einars hefur slegið rækilega í gegn á meðal skákmanna enda mikil skemmtun og mikilvægur viðburður í skákmótaflóru landsins. Mótið var haldið með stuðningi Toppfisks ehf.

Er gengið var í skáksalinn mátti glögglega skynja andrúmsloft sem á sér enga hliðstæðu í skákmótahaldi hér á landi. Það sem gerir andrúmsloftið svo einstakt -allt að því töfrandi- er darraðardans æskuljómans og viskunnar á reitunum 64. Kynslóðirnar virðast nærast af samvistinni hvor við aðra. Þegar þær setjast andspænis hvorri annarri og tefla skák er sem ósýnilegur silkiþráður liggi á milli þeirra sem flytur næringuna á milli; æskuljóminn berst í aðra áttina, viskan í hina. Orð eru með öllu óþörf. Þetta andrúmsloft setur skákina í stærra samhengi fyrir okkur hin sem höfum misst æskuljómann og leitum enn viskunnar. Skák er nefnilega ekki einvörðungu fyrir þá sem hafa safnað mörgum skákstigum. Skák er fyrir alla. Það er hlutverk skákforystunnar að tryggja að allir sem vilja njóta tafls geti gert það á sínum eigin forsendum. Til þess þarf að opna fleiri dyr. Dyr líkt og þær sem Einar S. Einarsson hefur opnað með þessu framtaki sínu sem Æskan og ellin er.

IMG_9492

Þó vinátta og virðing hafi svifið yfir vötnum þá skal því haldið til haga að lítil sem engin miskunn var sýnd í æsispennandi endatöflum og klukkubarningi. Hafi unga fólkið haldið að það myndi hala inn vinninga með því að fella þá gömlu á tíma þá var það mikill misskilningur. Einn sá harðasti á klukkunni að þessu sinni var Gylfi Þórhallsson sem náði í nokkra vinningana í æsilegu tímahraki. Gylfi var í toppbaráttu mótsins frá upphafi og lauk tafli með 7 vinninga í 9 skákum sem dugði honum til bronsverðlauna. Gylfi varð að játa sig sigraðan í 8.umferð gegn Júlíusi Friðjónssyni sem varð til þess að sigurinn í mótinu rann honum úr greipum. Það var þó kannski huggun harmi gegn að Gylfi var sá eini sem knésetti sigurvegara mótsins.

IMG_9474

Júlíus byrjaði mótið rólega og jafntefli gegn Róberti Luu í 2.umferð og tap gegn Þór Valtýssyni í 3.umferð þóttu merki um að hraðskákvélin væri ekki vel smurð. Þá rann hins vegar æði á Júlíus sem gekk berserksgang á taflborðunum og vann síðustu 6 skákir sínar. Júlíus fékk 7,5 vinning, jafn marga og sigurvegarinn en varð að gera sér 2.sætið að góðu eftir stigaútreikning.

Sigurvegari mótsins að þessu sinni kom úr röðum þeirra ungu og var það annað árið í röð sem hinir ungu skákuðu þeim eldri, og jafnframt í fimmta skipti á þeim 14 árum sem mótið hefur verið haldið. Í fyrra vann Vignir Vatnar Stefánssonar mótið, árið 2012 sigraði Oliver Aron Jóhannesson, og árin 2007-2008 varð hlutskarpastur einn fremsti hraðskákmaður heims, Hjörvar Steinn Grétarsson sem í dag situr í 27.sæti heimslistans í hraðskák með 2737 stig. Að þessu sinni, árið 2017, sat efstur hinn ungi Alexander Oliver Mai með 7,5 vinning. Alexander sem vann til verðlauna á sterku alþjóðlegu skákmóti á eyjunni Mön fyrir skömmu tefldi geysilega vel og vann fyrstu fjórar skákirnar. Í 5.umferð gerði Alexander jafntefli við gamla brýnið Þór Valtýsson. Það var svo í 7.umferð sem Alexander varð að játa sig sigraðan gegn Gylfa Þórhallssyni. Hann lagði þó ekki árar í bát heldur vann síðustu tvær skákirnar og laumaðist um leið yfir Júlíus Friðjónsson á stigum. Það verður spennandi að fylgjast Alexander Oliver Mai í framtíðinni því pilturinn er líklegur til að láta mikið að sér kveða.

IMG_9563

Líkt og hefð er fyrir var keppt í mörgum aldursflokkum og voru verðlaunahafar leystir út með verðlaunagripum og bókmenntum.

Efstu menn mótsins:

  1. Alexander Oliver Mai 7,5v.
  2. Júlíus Friðjónsson 7,5v.
  3. Gylfi Þórhallsson 7v.

80 ára og eldri:

  1. Sigurður Herlufsen 6,5v.
  2. Páll G. Jónsson 6v.
  3. Sigurður E. Kristjánsson 5,5v.

70 – 80 ára:

  1. Þór Valtýsson 6v.
  2. Ólafur Bjarnason 6v.
  3. Kristinn Þ. Bjarnason 6v.

60 – 70 ára:

  1. Júlíus Friðjónsson 7,5v.
  2. Gylfi Þórhallsson 7v.
  3. Ögmundur Kristinsson 6,5v.

13 – 15 ára:

  1. Alexander Oliver Mai 7,5v.
  2. Birkir Ísak Jóhannsson 6v.

10 – 12 ára:

  1. Óskar Víkingur Davíðsson 6v.
  2. Róbert Luu 5,5v.
  3. Gunnar Erik Guðmundsson 5v.

9 ára og yngri:

  1. Anna Katarina Thoroddsen 4v.
  2. Aron Örn Hlynsson Scheving 4v.
  3. Einar Tryggvi Petersen 4v.

Nánari upplýsingar um úrslit og lokastöðu má nálgast á Chess-Results. Hirðljósmyndari Taflfélags Reykjavíkur, Þórir Benediktsson, gerði mótinu vönduð skil með á annað hundrað ljósmyndum sem nálgast má á myndavef félagsins. Skákstjórn var í öruggum höndum hins síkáta skákdómara Jon Olav Fivelstad sem stóð vaktina af röggsemi ásamt því að slá á létta strengi á milli umferða. Honum barst svo liðsauki undir lokin er Garðbæingurinn knái Páll Sigurðsson bættist í hópinn, en Páll hefur mörg undanfarin ár stýrt þessu móti.

Taflfélag Reykjavíkur vill koma á framfæri þökkum til allra sem lögðu leið sína í félagsheimilið og tóku þátt í að gera þennan viðburð jafn eftirminnilegan og raunin varð. Auk þess fær Einar S. Einarsson sérstakar þakkir fyrir samstarfið sem og Toppfiskur ehf fyrir að styðja við þennan ánægjulega skákviðburð sem Æskan og ellin er.

Þar með er lokið einu skemmtilegasta skákmóti ársins. Skákmótið þar sem kynslóðirnar mætast. Ekki er laust við að tilhlökkun hafi þegar gert vart við sig þó tæplega 12 mánuðir séu í næstu kynslóðabrú.