Adam Unglingameistari TR 2018; Batel Stúlknameistari



20181104_163354

Vel var mætt í húsakynni Taflfélags Reykjavíkur í dag, er fram fór Barna- og unglingameistaramót félagsins, sem og Stúlknameistaramót félagsins.

Þetta eru tvö aðskilin mót sem tefld eru á sama tíma síðla hausts. Í dag voru 25 þátttakendur í Barna- og unglingameistaramótinu og 12 í Stúlknameistaramótinu, sem telst prýðisgóð þátttaka miðað við fyrri ár. Það þýðir jafnframt að þriðjungur þátttakenda voru stúlkur og er það til marks um vaxandi hlutdeild stúlkna í þátttöku á skákmótum, sem má m.a. rekja til hinna vinsælu stúlknaæfinga Taflfélags Reykjavíkur sem Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir kom á og hefur stýrt með myndarbrag um árabil.

Víkjum þá að mótinu í dag. Fyrrnefnd Sigurlaug og Torfi Leósson voru skákstjórar, rétt eins og undanfarin ár. Sú stjórn var tíðindalítil, þar sem þátttakendur og áhorfendur voru til fyrirmyndar og höguðu meira að segja hin smæstu sér eins og þau væru margreynd í mótataflmennsku.

Heldur meiri tíðindi gerðust á skákborðinu og var hart barist í báðum flokkum. Í stúlknaflokki hafði Batel Goitom Haile sigur með fullu húsi, 7 vinninga af 7 mögulegum. Batel var vel að sigrinum komin. Einhverjar stöður hennar á skákborðinu voru tvísýnar, en reynsla hennar, keppnisharka og skákskilningur skilaði sigrinum ávallt í hús. Batel varði þar með titil sinn sem Stúlknameistari Taflfélags Reykjavíkur og er hún nú búin að vinna hann þrjú ár í röð. Í 2. sæti varð Freyja Birkisdóttir með 6 vinninga og þriðja varð Anna Katarina Thoroddsen með 5 vinninga. Allt eru þetta stúlkur sem hafa marga fjöruna sopið við skákborðið, en eiga jafnframt framtíðina fyrir sér.

Tvísýnna var um úrslit í Barna- og unglingameistaramótinu, sérstaklega eftir næstsíðustu umferð þegar Adam Omarsson, sem fram að því hafði leitt mótið með fullu húsi, tapaði fyrir ríkjandi Unglingameistara, Kristjáni Degi Jónssyni. Allt var því undir í síðustu umferðinni, en svo fór að Adam vann á meðan Kristján Dagur tapaði. Jafn Adam með 6 vinninga varð Rayan Sharifa, en þar sem Adam hafði unnið sigur í innbyrðis viðureign þeirra, þá hafði Adam sigur í mótinu. Adam er því  Unglingameistari Taflfélags Reykjavíkur. Í öðru sæti varð Rayan Sharifa eins og fyrr segir og Benedikt Þórisson varð í 3. sæti með 5 vinninga, jafn Kristjáni Degi, en hlaut bronsið þar sem hann hafði unnið sigur í innbyrðis viðureign þeirra.

Fyrst og fremst var þetta skemmtilegt mót og öðluðust þátttakendur dýrmæta reynslu og myndu sumar stöðurnar sem upp komu á borðunum sóma sér vel í kennsluheftum Taflfélags Reykjavíkur.

20181104_170220_b (2)

Verðlaunahafar í stúlknaflokki (f.v): Freyja, Batel og Anna Katarina.

Aldursflokkasigurvegarar í Stúlknameistaramótinu:

8 ára og yngri: Wihbet Goitom Haile

9-10 ára: Anna Katarina Thoroddsen

11-12 ára: Batel Goitom Haile

Heildarúrslit í Stúlknameistaramótinu má finna á Chess-Results.

 

Aldursflokkasigurvegarar í Barna- og unglingameistaramótinu:

8 ára og yngri: Josef Omarsson

9-10 ára: Einar Tryggvi Petersen

11-12 ára: Adam Omarsson

13-15 ára: Kristján Dagur Jónsson

Heildarúrslit í Barna- og unglingameistaramótinu má finna á Chess-Results.

20181104_170522

Verðlaunahafar í opnum flokki ásamt skákstjóra (f.v.): Benedikt, Adam, Rayan og Torfi.