Í 125 ára sögu Taflfélags Reykjavíkur (TR) hafa fáir, ef nokkrir, markað jafn djúp spor í starfsemi
félagsins og Ólafur H. Ólafsson. Starf Ólafs, eða Óla H. eins og hann var jafnan kallaður, sem
umsjónarmanns barna- og unglingastarfs TR, spannaði tímabil sem talið er í áratugum, ekki árum.

Stundum vill þó gleymast að Ólafur var vel liðtækur skákmaður, sem dæmi tók hann þátt í
landsliðsflokki Skákþings Íslands árið 1972. Tveimur árum síðar, eftir stormasaman aðalfund í TR, var
Óli kosinn í stjórn TR. Um þá niðurstöðu má lesa í fundargerðarbók félagsins en þar er að finna eitt
einkenna Óla, hversu handskrift hans var glæsileg og hversu nákvæmur hann var sem fundarritari.

Á fyrstu árum Óla í stjórn félagsins var félagið til húsa að Grensásvegi 44-46. Þar var Óli á heimavelli.
Hann hafði gott auga fyrir því hvaða ungviði hefði hæfileika fyrir skáklistinni. Hann fóstraði jafnan slíka
einstaklinga. Til varð einskonar klíka, Óla H. klíkan. Hann var einstaklega lunkinn að halda sterkum
skákmönnum saman sem félagslegri einingu, rætt var um „kiddakvöld“ heima á Rauðárstígnum hjá
Óla H.

Innsýn Óla á grundvallaratriðum skáklistarinnar gagnaðist ungum skákmönnum, meðal annars þegar
hann var fararstjóri á ótal Norðurlandamótum, hvort sem það var í einstaklings- eða liðakeppni.
Sjaldan kom keppandi fyrir Íslands hönd að tómum kofanum hjá Óla. Hann viðhélt áhuga fólks á
greininni með ófáum símtölum en fyrir kom að þau væru allöng og gat þá reynt á þolinmæði
„kiddanna“ eftir því sem þau nálguðust fullorðinsár. Sem skákstjóri og mótsstjóri var hann
röggsamur.

Sjálfsagt má segja að saga Taflfélags Reykjavíkur hefði orðið önnur hefði félagið ekki stígið það skref
árið 1989 að færa sig frá Grensásveginum yfir í Faxafen 12. Í kjölfar þeirra breytinga glímdi félagið
við mikla fjárhagserfiðleika. Óli afréð að gerast formaður félagsins árið 1994 og varð hann þá
umdeildari en stundum áður. Í árslok 1996 lét Óli af formennsku í félaginu en hélt áfram að starfa fyrir
það af dugnaði og ósérhlífni.

Baráttuaðferðir Óla fyrir barna- og unglingastarfinu í skákinni gátu einkennst að miklum viljastyrk og
við það urðu jafnan átök við aðra hagsmuni, þar á meðal gagnvart hagsmunum bestu skákmanna
landsins. Lognmolla ríkti því sjaldan á meðan Óli var upp á sitt besta og stundum var sagt um hann,
líkt og sagt var í Gerplu: „Fall ei fyrir friði ef ófriður er í boði.“

Þegar Óli varð sextugur í ársbyrjun 2005 hélt TR og Skáksamband Íslands samkvæmi honum til
heiðurs. Við þau tímamót voru allar stríðsaxir grafnar og upp úr stóð að mikill fjöldi manna í
skákhreyfingunni stóð í þakkarskuld við Óla. Hann bjó til jarðveg svo að draumar margra
hæfileikaríkra skákmanna gætu mögulega ræst. Saga Taflfélags Reykjavíkur hefði orðið mun fátækari
án framlags Óla H. Ólafur var gerður að Heiðursfélaga Taflfélags Reykjavíkur árið 2023.

Fyrir hönd Taflfélags Reykjavíkur þakkar félagið Óla H. fyrir samfylgdina og óskar öllum nánustu
aðstandendum hans hluttekningu við fráfall hans. Á vettvangi félagsins verður minning góðs drengs
ávallt í heiðri höfð.
Taflfélag Reykjavíkur Elsta og virkasta skákfélag landsins