Símon sigurvegari á Viðeyjarskákmótinu



Það var þokukenndur en fallegur sunnudagur þegar keppendur skelltu sér í ferjuna til Viðeyjar til að taka þátt í fimmta Viðeyjarskákmótinu sem Taflfélag Reykjavíkur heldur í Viðeyjarstofu í samstarfi við Eldingu og Borgarsögusafn. Það var viðeigandi að þetta skemmtilega mót færi fram á Alþjóðlega skákdeginum, 20. júlí.

Það var sjáanlegt þungt yfir borginni á þessum annars fallega degi.

Upphaflega var Björn Þorfinnsson stigahæstur skráðra keppenda. Hann varð hinsvegar á sviplegan hátt að hætta við þátttöku eftir að pólskur farandsmiður hafði bankað uppá á heimili hans og óskað eftir vinnu. Björn, góðmennið sem hann er, þáði boðið en þurfti að fara í Byko til að hægt væri að smíða eitthvað. Björn tilkynnti því brotthvarf úr mótinu.

28 keppendur hófu leik eftir þetta brotthvarf en litlu munaði að akureyskur CM myndi bætast í hópinn á lokametrunum en hann hann varð að hætta við þegar hann áttaði sig á að hann hefði líklegast teflt yfir sig á enn einu hraðskákmótinu skipulagt af Gauti Páli Jónssyni sem fram fór daginn áður.

Toppurinn var því nokkuð jafn í styrkleikaröðun en aðeins munaði 17 elóstigum á Róbert (2239) í efsta sæti og Gauti Páli (2222) í fjórða sæti. Allt fór meira og minna eftir bókinni í fyrstu tveimur umferðunum. Stigahærri skákmenn unnu að jafnaði, Elvar Þór byrjaði vel og var fyrstur til að leggja stigahærri mann þegar hann vann gegn Erlingi í 2. umferð.

Elvar byrjaði mótið vel með 3 af 3

Undir lok 2. umferðar barst skákstjórn óvænt símtal. Björn Þorfinnsson hafði laumað sér í næstu ferju og spurði hversu mörgum umferðum hann væri að missa af. Björn þurfti að fórna tveimur umferðum eins og samferðamaður hans í bátnum, Pétur Jóhannesson.

Pétur kom ferskur til leiks úr ferjunni og náði glæsilegu máti í 4. umferð

Ljóst var að þessi gambítur Björns yrði erfiður. Róbert og Sigurbjörn byrjuðu best og höfðu báðir 4 vinninga af 4 mögulegum. Róbert stoppaði sterka byrjun Elvars í 4. umferðinni á meðan að Sigurbjörn lagði Símon að velli. Róbert tók forystu í 5. umferð þegar hann lagði Sigurbjörn í toppuppgjöri þeirra.

“Doninn” er alltaf traustur í hraðskák og byrjaði mjög vel á mótinu með 5 af 5.

Hér virtist Monrad-gambítur Björns enn lifandi þó ólíklegt væri að hann næði efsta sætinu. Þær vonir slökknuðu eiginlega í 6. umferð þegar Gunnar Erik gerði jafntefli við Björn.

Monrads-meðbyr Björns var orðinn erfiður eftir janfteflið í 6. umferð

Mótið galopnaðist í þessari sömu 6. umferð þegar að Símon lagði Róbert að velli. Að loknum sex umferðum voru fjórir skákmenn jafnir með 4 vinninga, þeir fjórir stigahæstu sem hófu mótið, Róbert, Símon, Sigurbjörn og Gauti Páll.

Símon opnaði mótið með sigri gegn Róbert í 6. umferð

Nú var ljóst að toppbaráttuskákirnar yrðu hver annari mikilvægari í lokaumferðunum þremur. Símon og Sigurbjörn unnu báðir í 7. umferð en Róbert missti niður mikilvægan hálfan punkt gegn Braga Halldórssyni. Þar slapp Róbert reyndar svo sannarlega með skrekkinn, Bragi hafði kolunnið tafl en greip í tímahraki í peð sitt (sem var líklegast á f-línunni).

Síðasti leikur Róberts hafði verið kóngur til g3 og svartur nær nú þráskák eftir að hafa haft gjörtapað tafl!

Gauti hjálpaði Símoni með því að leggja Sigurbjörn að velli í 8. umferð. Símon hélt sínu striki og var nú einn efstur fyrir lokaumferðina með 7 vinninga en á eftir honum kom Róbert Lagerman með 6,5 vinning og Sigurbjörn 6 vinninga ásamt Gauta.

Í lokaumferðinni dró Símon stutta stráið en hann mætti Birni sem var loks kominn á efstu borð og gaf þar Róberti von. Róbert vann gegn Stefáni Bergssyni og hann yrði nú sigurvegari ef Símon myndi tapa gegn Birni. Símon hafði hinsvegar aðrar hugmyndir og lagði Björn að velli og tryggði sér sigurinn!

Lokastaðan eftir 9 umferðir:
🥇 1. FM Simon Þórhallsson – 8 vinningar (+46 eló)
🥈 2. FM Róbert Lagerman – 7½ vinningar (+21 eló)
🥉 3. FM Sigurbjörn Björnsson – 7 vinningar

Þrír efstu á Viðeyjarmótinu, Sigurbjörn (3. sæti), Símon (1. sæti) og Róbert (2. sæti)

Ítarlegur myndapakki frá mótinu, það var Jökull Úlfarsson, pabbi Eiðs sem tók myndirnar og fær bestu þakkir fyrir!

Fyrrverandi forsetinn Gunnar Björnsson hækkaði um 30 hraðskákstig á mótinu!

Ungir keppendur bíða óþreyjufullir eftir pörun

Róbert mundar mennina gegn Gauti í toppbaráttuskák

Nicolas Beltrame náði sér í fína hækkun, tæp 30 hraðskákstig

Djöfull er gaman að þessu!

Einbeitingin skín úr fasi keppenda hér

Einn af fjölmörgum ungum og efnilegum TR-ingum á mótinu

Arnar Ingi lætur sig sjaldan vanta á skákmót

Eiður einbeittur að vanda

Séð yfir salinn á efri hæð Viðeyjarstofu