Haustmótið hafið!



Hið sögufræga Haustmót Taflfélags Reykjavíkur hófst í gærkvöldi. Mótið er fastur hluti af mótadagatalinu og að þessu sinni náðust tveir lokaðir flokkar, A og B flokkur auk opins flokks. Alls eru keppendur 48 talsins.

Alþjóðlegi meistarinn John Bartholomew, vinsæll Youtuber og einn af stofnendum Chessable, var staddur á landinu og var fenginn til þess að leika fyrsta leikinn í A-flokki og setja mótið.  Slegið var á létta strengi og stakk John upp á 1.a4 í fyrsta leik en Björn Hólm ákvað að feta eigin slóðir þegar á hólminn var komið!

Vindum okkur beint í úrslitin!

A-flokkur

Tíu stigahæstu keppendurnir keppa í A-flokki allir við alla. Jóhann Ragnarsson vann sér keppnisrétt með því að vinna B-flokkinn í fyrra. Sigurbjörn Björnsson er stigahæstur keppenda að þessu sinni og eini 2300+ keppandinn. Baráttan um skákmeistara TR gæti orðið hörð að þessu sinni. Ingvar Wu Skarphéðinsson átti ekki heimangengt að þessu sinni til að verja titilinn og líklegt að ungu mennirnir Benedikt og Adam berjist við “gömlu kallana” þá Torfa og Kjartan um titilinn.

Skák tvíburanna Björns og Bárðs varð stórskemmtileg. Venjulega er raðað þannig í lokuðum flokkum að keppendur með sterk fjölskyldutengsl (eða frá sömu löndum í alþjóðlegum mótum) þurfa að mætast snemma í mótum. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að keppendur lendi í þeim aðstæðum að “hagrædd” úrslit henti betur. Slíkt á ekki við í fyrstu umferðum og eins og yngri skákmenn landsins þá eru menn að því er virðist hættir að semja einhver stutt jafntefli innbyrðis og tefla bara!

Björn hafði hvítt og upp kom semi-slavinn svokallaði. Björn fónaði peði og fékk mjög hættuleg færi.

Svartur kóngurinn hér á miðborðinu og hvítur kominn með derring fyrir peðið. Hér er bæði 21.Bxc6 og 21.Bxa6 eins og Björn valdi hættulegt fyrir svartan. Eftir 21…bxa6 22.Dxa6 Hc7 23.Bf4 (23.Db6!?) 23…e5 kom…

24.Db6? sem sneri matinu á stöðunni svörtum í hag. 24.Da8+ Ke7 25.Da3 hefði líklegst dugað til jafnteflis en Björn vildi meira sem varð honum að falli. Bárður náði að hanga á manninum og koma kóngnum í skjól og liðsaflinn réði úrslitum í langri skák.

 

Ekki má vanmeta ungu mennina. Benedikt Þórisson er nýkominn af EM ungmenna og ferskur í taflmennskunni eins og margir á Haustmótinu. Símon Þórhallsson tefldi lengst af vel en teygði sig of langt og hefði átt að sættast á jafntefli í lokin þar sem nokkur tækifæri gáfust til að grípa jafnteflið. Benedikt þáði tækifærið og innbyrti nokkuð óvæntan vinning gegn FIDE meistaranum trausta.

Kjartan Maack virtist fá hættulegt frumkvæði gegn Jóhanni Ragnarssyni í miðtaflinu en tókst ekki að gera sér mat úr því og frumkvæðið fjaraði út og jafntefli þá alltaf líklegustu úrslitin, sem varð niðurstaðan.

Adam hefur teflt mikið í sumar…Torfi minna undanfarin ár! Adam er mörgum hnútum kunnur í kóngsindverjanum og var skarpari í taktískri skák að þessu sinni. Torfi verður hættulegri þegar líður á mót og ryðið minnkar.

Mikael Jóhann Karlsson getur verið hverjum sem er skeinuhættur eins og þeir Þorfinnsson bræður þekkja kannski manna best! Í 1. umferðinni lagði hann stigahæsta mann flokksins, Sigurbjörn Björnsson að velli nokkuð óvænt. Stöðutýpan varð snemma svolítið sérstök og Mikael kom betur úr flækjunum, vann peð og fangaði svo drottningu Sigurbjörns og náði sér í góðan sigur.

Skákir er hægt að sjá á lichess (tengill að neðan) eða í frétt á Skak.is

B-flokkur

B-flokkurinn ætti að vera jafn og spennandi eins og alltaf. Keppendur á svipuðu stigabili og gaman að sjá hver stígur upp. Ein skák var í beinni úr B-flokki. Þar mættust Sverrir Sigurðsson og Markús Orri Jóhannsson. Markús eins og margir af ungu skákmönnunum að hamra járnið meðan það er heitt og nýta sér EM ungmenna og reynsluna þar. Markús var skarpari í þessari skák og vann góðan sigur!

Engin jafntefli voru í umferðinni. Jósef og Mikael voru eins og Markús Orri heitir eftir EM og unnu sínar skákir.

Guðni Stefán Pétursson þurfti því miður að draga sig úr leik og því verður flokkurinn 9 manna flokkur. Skák hans við Josef er reiknuð en telur ekki til úrslita í flokknum.

Opinn flokkur

Óttar Örn og Sigurlaug eru stigahæst í opnum flokki. Nokkrir ungir skákmenn gætu þó bankað á dyrnar og verður flokkurinn vafalítið spennandi. Lítið var um mjög óvænt urslit en þó nokkur jafntefli gegn væntingum elóstigakerfisins.

Birnukaffi verður á sínum stað!