Ólafur Thorsson vann á Þriðjudagsmóti



Þeir Oliver Bewersdorff og Ólafur Thorsson voru langstigahæstir keppenda á Þríðjudagsmótinu í síðustu viku. Það kom því ekki á óvart að þeir áttust við um fyrsta sætið og svo skemmtilega vildi til að þeir tefldu úrslitaskák í síðustu umferð. Þar dugði Ólafi hins vegar jafntefli því Fidemeistarinn hafði ekki náð að leggja hinn ógnartrausta Kristófer Orra í 3. umferð. Svo fór að skák þeirra stigamannanna endaði með jafntefli og Ólafur þannig taplaus sigurvegari (þeir eru það nú reyndar oftast sigurvegararnir á Þriðjudagsmótum; mótið er jú bara fimm umferðir…). Mótið hefur gjarnan tekið á sig alþjóðlegt yfirbragð og svo var einnig nú. Af 21 keppenda voru sex af erlendu bergi brotnir; Mohammadhossein Ghasemi náði öðru sætinu með 4 vinninga (varð efri á stigum en áðurnefndir Oliver og Kristófer) og sá sem fékk verðlaunin fyrir besta frammistöðu miðað við stig, var Artur Karpelenia.

Öll úrslit og stöðu Þriðjudagsmótsins má nálgast hér á chess-results.

Næsta mót verður 18. október og hefst, eins og jafnan, stundvíslega klukkan 19:30, í Skákhöll TR í Faxafeni. Fimm umferðir; 10 mínútur og 5 sekúndna viðbótartími.