Jóladagatal TR – #8 Skyrgámur



Á hverjum degi til jóla birtist ein skákþraut á taflfelag.is. Alls verða þrautirnar þrettán talsins, í takt við jólasveinana. Síðasta þrautin mun birtast á Þorláksmessu. Þeir sem ná að leysa þrautirnar geta skilað lausnunum á netfangið bivark@gmail.com í síðasta lagi kl. 20:00 að kvöldi Jóladags, 25. desember. Fram þarf að koma nafn þess sem sendir lausnirnar inn. Dregið verður úr bestu lausnunum og sigurvegarinn fær veglegan jólaglaðning. Jóladagatal TR er ætlað öllum þeim sem eru áhugasamir um skák.

skyrgamur

Mynd: Búi Kristjánsson

Skyrgámur er gráðugur skákmaður sem drepur allt sem honum býðst. Stundum hefur græðgin komið honum í vandræði og hann hefur leikið sig í mát eftir að hafa þegið of margar af fórnum andstæðingsins. Á vordögum slógu Skyrgámur og Mjóafjarðarskessan upp tíu skáka einvígi sem fram fór á heimavelli skessunnar, í Mjóafjarðargili við Fjörð í Mjóafirði. Aðstæður voru afleitar þrátt fyrir árstímann; súld, rigning og á tímabili stórhríð svo Skyrgámur sá varla á taflborðið – enda með augun full af snjó. Skessan lék hins vegar við hvern sinn fingur og leiddi í einvíginu 5 – 4 þegar hér var komið sögu. Skessan vissi af veikleika Skyrgáms, græðginni, og lék síðast lúmskum leik: …De4. Hún vonaðist til þess að lokka Skyrgám í gildru því ef hann tæki drottninguna yrði hann mát uppi í borði. En Skyrgámur sat á höndum sér, hugsaði sig vel um, og fann millileik sem tryggði honum sigur í skákinni og bráðabana í einvíginu.

skyrgamur-stodumynd

Hver er vinningsleikur hvíts?