Pistill frá Guðmundi um Skoska meistaramótið



Eftir stórglæsilegan árangur á Skoska meistaramótinu þar sem Guðmundur Kjartansson nældi sér í sinn fyrsta stórmeistaraáfanga hefur hann nú sent frá sér nýjan pistil:

Skoska meistaramótið

Skoska meistaramótið var haldið í Edinborg dagana 11-19.júlí s.l. Eins og hefur komið fram í fyrri pistlum mínum var mótið opið og alþjóðlegt í ár, og tóku tíu stórmeistarar þátt auk eins alþjóðlegs meistara. Undirritaður og Aron Ingi Óskarsson voru einir Íslenskra keppenda og veit ég ekki til þess að íslenskur skákmaður hafi áður tekið þátt í þessum ágæta viðburði.

Skotar verða líklega seint þekktir fyrir mikla skákmenningu þrátt fyrir að þeir eigi nokkra ágæta stórmeistara og hefur lítið verið um að Íslendingar sæki mót þangað. Því fannst mér tilvalið að skella mér til Edinborgar þegar skoskir félagar mínir, sem ég kynntist í Hastings, sögðu mér frá mótinu.

Fljótlega bættist vinur minn hann Aron Ingi í hópinn og vorum við orðnir töluvert spenntir fyrir því að heimsækja þessa frægu höfuðborg Skota. Ég held að það sé óhætt að segja að við urðum ekki fyrir vonbrigðum enda Edinborg mjög falleg borg og gæti ég vel hugsað mér að heimsækja hana aftur án þess að vera að tefla.

Mótið var hins vegar vel skipulagt og fór mjög vel fram í alla staði auk þess sem keppnisstaður var eins og best var á kosið. Keppt var í „The City Chambers“ eða ráðhúsi Edinborgar og líklega erfitt að finna flottari stað fyrir skákmót…….. En þá að skákinni. Eftir mótið í London notaði ég ekki mikinn tíma til að líta á skák eða undirbúa mig fyrir næsta mót og þó að ég vissi að ég gæti gert betur en í Big Slick taldi ég raunsætt að stefna á 15 eða í mesta lagi 20 stiga gróða og reyna að gera sem best úr því sem eftir væri af ferðinni. En flestum að óvörum og mér sjálfum einnig tókst mér að landa mínum fyrsta áfanga að stórmeistaratitli og hækka um 42 stig.

Aron Ingi fór ekki jafn vel af stað enda aðeins ryðgaður eftir fyrsta árið í háskólanum þar sem hann hefur haft lítinn tíma fyrir skák. Þó komst hann betur í gang í seinni hluta mótsins og náði að klára ágætlega enda getur hann teflt vel þegar hann er kominn í gírinn. Ekki ætla ég að fara í smáatriðum í hverja og eina skák en yfir heildina fannst mér ég einfaldlega tefla af öryggi og var yfirleitt ekki í neinni hættu.

Ég byrjaði mjög vel og leiddi mótið eftir fyrstu fjórar umferðirnar, tefldi svo ágætlega framan af í fimmtu skákinni á móti slóvakíska stórmeistaranum Jan Markos en var of fljótur á mér og valdi slaka leið vegna misreiknings þegar ég hefði getað reynt að framkvæma betri útgáfu af sömu hugmynd, og leiddi það fljótlega til taps. Eftir það tóku við tvö jafntefli gegn skoskum stórmeisturum, það fyrra gegn skákdrottningunni Kettii Arakhamia-Grant sem er upprunlalega frá Georgíu og svo Jonathan Rowson. Ég tefldi mjög vel og af miklu öryggi og stóð til vinnings í báðum skákum en bæði tvö vörðust mjög vel og því gat ég ekki annað en mætt enn grimmari í næstu skák þar sem fórnarlambið var skoski stórmeistarinn Colin McNab. McNab hefur slæma reynslu af Íslendingum en FM Ingvar Þór Jóhannesson sigraði hann þegar hann kom til Íslands árið 2007.

Sigurinn gegn McNab í áttundu umferð þýddi að jafntefli í lokaumferðinni tryggði mér áfanga að stórmeistaratitli. Þegar ég frétti að ég myndi fá enska stórmeistarann Mark Hebden í síðustu umferð vissi ég að ég þyrfti að koma vel undirbúinn og ákveðinn í skákina. Ég bauð honum jafntefli í níunda leik eiginlega fyrst og fremst til að geta lagt tilhugsunina um stórmeistaraáfangann til hliðar, þar sem ég átti ekkert sérstaklega von á því að hann þæði boð mitt. Það var líka í fínu lagi þar sem ég var tilbúinn fyrir bardaga og vissi að ég gæti farið sáttur frá mótinu sama hvað gerðist.

Ekki leið þó á löngu þar til ég var kominn með töluvert betra, jafnvel hálf unnið og ákvað hann þá að nota trompið sitt og bauð jafntefli eftir 28…g4. Til að byrja með var ég staðráðinn í því að taka boðinu ekki, en þegar ég sá að smá flækjur voru yfirvofandi vafðist ákvörðunin aðeins fyrir mér auk þess sem ég þurfti að reyna að finna sannfærandi leið sem myndi a.m.k. gefa mér töluvert betra en það var ekki svo auðvelt.

Eftir langa íhugsun ákvað ég að halda taflmennskunni áfram enda staðan áhugaverð og virkaði vænleg fyrir hvítan. Ég var lítið að stressa mig á tímanum þar sem ég var búinn að sjá að ég ætti tvær til þrjár vinningsleiðir en sú sem ég valdi og taldi vera einfaldasta var allt annað en unnin og missti ég af sterkum leik Hebdens. Með innan við mínútu eftir fyrir tímamörkin náði ég þó að halda ró minni og finna snjalla leið sem leiddi til þráteflis. Fyrsti SM-áfanginn í höfn og fer ég að sjálfsögðu mjög sáttur frá mótinu og Skotlandi.

Eftir þetta góða gengi ákvað ég að drífa mig til Tékklands þar sem ég er staddur nú og tek þátt í Czech Open í Pardubice sem er nýhafið!

Guðmundur Kjartansson