Hallgerður Helga stúlknameistari Reykjavíkur í fimmta sinn á



  Nítján stúlkur skráðu sig til leiks á Stúlknameistaramóti Reykjavíkur 2008. Þetta er  fimmta árið sem mótið er haldið og  í þriðja sinn sem teflt er um Birnubikarinn svonefnda, glæsilegan farandbikar sem gefinn var af sæmdarhjónunum Ólafi S. Ásgrímssyni og Birnu Halldórsdóttur. Hin fimmtán ára gamla Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir hefur ávalt borið sigur úr býtum á þessu móti, eða allar götur síðan hún var tíu ára gömul, sem er sannarlega glæsilegur árangur.

Það var samt hart barist um Birnubikarinn að þessu sinni, því fyrir síðustu umferð áttu fjórar stúlkur möguleika á sigri í mótinu. Stefanía Stefánsdóttir var jöfn Hallgerði í efsta sæti og þær Sigríður Björg Helgadóttir og Jóhanna B. Jóhannsdóttir fylgdu fast á hæla þeirra með hálfum vinningi minna. Stefanía og Hallgerður mættust í hreinni úrslitaskák í lokaumferðinni. Hallgerður hafði svart og tókst að snúa á Stefaníu í miðtaflinu og vinna peð. Hún tefldi áframhaldið af öryggi og Stefanía varð að játa sig sigraða þegar umframpeðið var óverjandi á leið upp í borð. Úrslitin urðu því þau að Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir hampaði sigurlaununum í fimmta sinn!

Mótshaldarinn, Taflfélag Reykjavíkur, bauð síðan öllum keppendum og aðstandendum þeirra upp á pizzur og Pepsi Cola í mótslok og skákstjórinn Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir, varaformaður Taflfélags Reykjavíkur, afhenti stúlkunum sigurlaunin og sleit þessu skemmtilega móti.

Röð þeirra efstu:

  1. Hallgerður H. Þorsteinsdóttir                  6 vinningar af 7 mögulegum
  2. Sigríður B. Helgadóttir                           5½
  3. Jóhanna B. Jóhannsdóttir                      5½
  4. Stefanía Stefánsdóttir                            5
  5. Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir            4

o.s.frv.