Úrslitin í 2. umferð hafa þegar komið fram hér á TR-síðunni, en mig langaði að bæta við dálitlu frá eigin brjósti:
2. umferð:
Litháen – Hvíta Rússland 2,5-1,5
Búlgaría – Ísland 2,5-1,5
Tihomir Janev – Daði Ómarsson 1-0
Georgi Krumov – Vilhjálmur Pálmason 1-0
Ani Krumova – Matthías Pétursson 0-1
Mishal Georgiev – Einar Sigurðsson 0,5-0,5
Við fáum Litháen á morgun. Í fyrra voru þessar tvær sveitir í algjörum sérflokki, en í ár er engan veginn hægt að spá fyrir um hverjir verða í baráttu um sigurinn. Til þess eru sveitirnar of þéttar.
Í raun eru andstæðingarnir í ár eins og ég hélt að þeir yrðu í fyrra: Þéttir austantjaldsskákmenn. Þessir krakkar eru ekki betri en okkar krakkar, kannski aðeins síðri í sumum tilfellum jafnvel. Hinsvegar hafa þau meiri aga, tefla ekki í tvísýnu, tefla hraðar og setja þannig pressu á okkar menn. Í dag á móti Búlgaríu vorum við t.d. með verri tíma á öllum borðum.
Daði tefldi með höfuðverki og náði engri einbeitingu. Hann átti samt a.m.k. tvisvar í skákinni góð færi, en tapaði samt.
Villi tapaði, en fær væntanlega mikla reynslu úr því. Andstæðingur hans gerði nánast ekki neitt, svaraði bara öllu sem Villi gerði, passaði sig á að leika ekki af sér og beið átekta. Þegar stefndi í glæsilegan svíðing hjá Villa komu nokkrir ónákvæmir leikir og Búlgarinn var fljótur að átta sig. Að lokum tapaði Villi tveimur peðum á einu bretti og þá var skákin búin.
Aftur á móti var þetta öfugt hjá Matta. Hann var með svart og hvítur tefldi afar bitlausa byrjun. Síðan urðu mikil uppskipti og að lokum lokaði Búlgarinn stöðunni. Matti bauð jafntefli, enda gat hann ekkert gert. Liðstjóri Búlgaranna hafnaði því hinsvegar. Þá setti stelpan smá pressu á Matta, sem tókst þó að halda sjó. Síðan reyndi hún of mikið og fór að gera tóma vitleysu og Matti seiglaðist til sigurs.
Einar vann skiptamun fyrir peð en Búlgarinn vildi ekki gefa sig, lokaði stöðunni og passaði sig á að vera með meiri tíma. Einar fór út í áætlun sem gaf ekki mikið í aðra hönd. Þegar hann áttaði sig á því átti hann lítinn tíma eftir og alls óvíst hvort hann gæti unnið. Jafntefli.
Sem sagt, mótið í ár er í raun mun dýrmætari reynsla en í fyrra. Það er líka skemmtilegt að við fáum alla krakkana aftur í síðari umferðinni. Ég er lítið að spá í því að vinna mótið, í mínum huga er aðalmálið einmitt nú hvort strákarnir nái að lyfta taflmennskunni upp á nógu hátt stig til að sigrast á öguðum austur-Evrópubúunum (en það hefur löngum reynst Íslendingum erfitt). Bara að reyna það er frábær reynsla – að ná því væri stórkostlegt.
Torfi Leósson