Omar Salama kom, sá og sigraði á Hraðskákmóti TR



Þeir 38 galvösku skákmenn sem mættu í Faxafenið til þess að tefla á Hraðskákmóti TR létu varnaðarorð fjölmiðla um allmikið hvassviðri ekki stöðva sig. Það var handagangur í öskjunni í öllum umferðunum ellefu því nýju tímamörkin, 3+2, reyndust mörgum erfið viðureignar. Hraðinn var mikill og darraðardansinn sem stiginn var í tímahrakinu var hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. Þó einhverjum þættu tímamörkin of knöpp þá voru flestir sammála um að það sé skákinni til heilla er sigur vinnst á taflborðinu, en ekki á klukkunni. Að því leyti er viðbótartími í skák af hinu góða.

IMG_4370

Omar Salama er Hraðskákmeistari TR árið 2016.

Omar Salama mætti til leiks grár fyrir járnum og knésetti hvern andstæðinginn á fætur öðrum í upphafi móts. Einn mikilvægasti sigur Omars kom í 5.umferð er hann vann sinn helsta keppinaut, Dag Ragnarsson. Það var ekki fyrr en í 6.umferð sem Omar varð að játa sig sigraðan í fyrsta skipti, gegn Daða Ómarssyni. Í næstu umferð tapaði Omar aftur, þá gegn Erni Leó Jóhannssyni. Dagur hrifsaði þá til sín efsta sætið með agaðri taflmennsku, því líkt og alkunna er þá tekur einn Dagur annars björg burt. En enginn Dagur er til enda tryggður og nýjasti FIDE meistari okkar Íslendinga og nýkrýndur skákmeistari TR, Vignir Vatnar Stefánsson, skellti Degi í 10.umferð. Omar færði sér það í nyt, náði Degi að vinningum, og að lokum sátu þeir jafnir á toppnum með 9 vinninga. Stigaútreikningur setti Omar í efsta sæti, en Dagur varð að sætta sig við 2.sætið. Í 3.sæti varð Daði Ómarsson með 8 vinninga.

Omar Salama er því Hraðskákmeistari Taflfélags Reykjavíkur árið 2016.

Að loknu hraðskákmóti fór fram verðlaunaafhending fyrir Haustmót TR. Það var glatt á hjalla í félagsheimilinu er verðlaunin voru afhent og brugðu nokkrir verðlaunahafar á leik svo úr varð hin ágætasta skemmtun.

Þó svo hraustlega væri tekist á við taflborðin þá var andrúmsloftið í skáksalnum einstaklega létt og skemmtilegt, og kvöldstundin eftir því góð. Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum keppendum fyrir þátttökuna og vonast eftir að sjá alla sem fyrst aftur á einhverjum af þeim fjölmörgu skákviðburðum sem framundan eru í Faxafeninu.

Nánari upplýsingar um mótið má nálgast á chess-results.