Einar Valdimarsson (1945) fer mikinn á Skákmóti öðlinga og er nú einn efstur með fullt hús vinninga eftir sigur á Guðlaugu Þorsteinsdóttur (1943) í fimmtu umferð. Einar hefur vinningsforskot á þá félaga, Þorvarð F. Ólafsson (2222) og Halldór Pálsson (2030), sem höfðu betur gegn Haraldi Baldurssyni (1984) og Eiríki K. Björnssyni (1959).
Athyglisvert er að skákirnar á fyrstu fjórum borðunum unnust allar á svart og ekkert jafntefli leit dagsins ljós og raunar hefur ekki verið samið um skiptan hlut síðan í annarri umferð. Nokkuð merkilegt í ljósi þess hversu jafnt mótið er en sýnir vel stríðshaminn sem keppendur eru í enda mætir þessi hópur skákmanna- og kvenna ekki í Faxafenið til þess eins að kitla taflmennina lítið eitt.
Keppendur brýna nú sverð sín fram til næsta miðvikudagskvölds þegar sjötta og næstsíðasta umferðin fer fram en þá mætir forystusauðurinn Magnúsi Kristinssyni (1765). Á öðru borði verður mikilvæg barátta á milli Þorvarðar og Halldórs og á því þriðja mætir Guðlaug Ögmundi Kristinssyni (2030). Tímavélarnar verða ræstar nákvæmlega á slaginu 19.30 og eru áhugasamir hvattir til að skella sér í Skákhöllina þegar það gerist enda stemningin geggjuð. Kostar ekkert að líta í Faxafenið, heitt á könnunni og alles.