Hinir fjórir fræknu efstir á Skákþinginu



Þeir voru baráttuglaðir skákmennirnir sem mættu til leiks í 7.umferð Skákþings Reykjavíkur. Hart var tekist á á nær öllum borðum og réðust úrslit oft ekki fyrr en eftir djúpar flækjur og fallegar fléttur.

Á efsta borði glímdi Jón Viktor Gunnarsson við Stefán Kristjánsson. Þeir buðu áhorfendum upp á djúpa stöðubaráttu framan af sem síðar leystist upp í hróksendatafl. Jón Viktor virtist pressa nokkuð á Stefán í miðtaflinu en stórmeistarinn var vandanum vaxinn og leysti þau verkefni sem fyrir hann voru lögð. Gengu þeir félagarnir út í kvöldmyrkrið með hálfan vinning hvor.

IMG_7794 (1)

Jón Viktor Gunnarsson ritar tímamótaleik á skorblaðið.

Það sem af er móti hefur Vignir Vatnar Stefánsson brennt ör á sál tveggja titilhafa. Fídemeistarinn galvaski, Dagur Ragnarsson, fékk það hlutskipti að glíma við titilhafabanann unga. Dagur mætti afar einbeittur til leiks og hreyfði menn sína fimlega um borðið. Varð snemma ljóst að Vignir Vatnar átti fyrir höndum erfiðan Dag. Dagur pressaði undrabarnið stíft allt þar til varnarmúrinn brast og Vignir Vatnar lagði niður vopn. Fyrir vikið skaust Dagur upp í 2.sætið og ætlar pilturinn sér greinilega að gera atlögu að Reykjavíkurmeistaratitlinum, enda til alls líklegur þegar hann gefur frjóum huga sínum lausan tauminn.

Dagur_Ragnarsson

Dagur Ragnarsson tefldi skínandi vel í 7.umferð.

Á 3.borði stýrði Björn Þorfinnsson hvítu mönnunum gegn Þorvarði Fannari Ólafssyni. Eftir nokkurn barning þá týndi Björn peði, og voru áhorfendur ekki á einu máli um hvort þar væri um að kenna kænsku Þorvarðar eða lævísri áætlunargerð Björns. Í kjölfarið fann Björn veikleika á b7 sem hann nýtti sér til hins ýtrasta. Björn vann skákina og hefur pilturinn því unnið fjórar skákir í röð eftir að hafa beðið lægri hlut gegn fyrrum lærisveini sínum, Vigni Vatnari, í 3.umferð. Virðist Björn hvergi banginn fyrir lokasprettinn. Á 4.borði vann Guðmundur Gíslason góðan sigur með hvítu mönnunum gegn Mikael Jóhanni Karlssyni. Guðmundur hefur hlotið 5,5 vinning og gefur ekkert eftir á lokasprettinum.
IMG_7796

Guðmundur Gíslason er aðeins hálfum vinningi á eftir forystusauðum Skákþingsins.

Á 5.borði bauð Björgvin Víglundsson upp á kennslustund í því hvernig best er að bera sig að við að tefla gegn staka peðinu margfræga. Öll spjót beindust að peðinu sem að lokum lá sært í valnum. Loftur Baldvinsson er ekki vanur að kippa sér upp við þó vanti peð í safnið og beitti hann sínum alþekktu klækjum til þess að reyna að valda sem mestum skaða í herbúðum Björgvins. Björgvin var þó vandanum vaxinn og vann skákina að lokum er hann hristi létta taktík fram úr erminni. Þótti gárungunum það býsna vel að verki staðið í ljósi þess að Björgvin var klæddur stuttermaskyrtu.

IMG_7834 (1)

Jóhann H. Ragnarsson var í sóknarham í 7.umferð Skákþingsins.

Af öðrum skákum bar hæst að Jóhann H. Ragnarsson reimaði á sig fléttuskóna og vann Jón Trausta Harðarson laglega. Guðmundur Kjartansson þurfti að hafa mikið fyrir því að leggja Birki Karl Sigurðsson að velli og Héðinn Briem hélt áfram að tefla vel og gerði jafntefli við Hörð Aron Hauksson. Stefán Bergsson lenti í miklu basli með Nansý Davíðsdóttur og lengi vel leit út fyrir að Stefán yrði að lúta í gras. Stefán er hins vegar brögðóttur, líkt og landsmenn allir vita, og hafði að lokum sigur eftir klukkuvandræði Nansýjar. Mykhaylo Kravchuk varðist vel gegn Ólafi Gísla Jónssyni og hlaut að launum hálfan vinning. Þá var hinn léttleikandi reynslubolti, Björgvin Kristbergsson, í miklu stuði og lagðist í þunga kóngssókn sem skilaði honum vinningi í sarpinn.

IMG_7843

Björn Þorfinnsson hefur jafnað sig á tapinu gegn Vigni Vatnari í 3.umferð og hefur nú unnið fjórar skákir í röð.

Óvæntustu úrslit umferðarinnar litu dagsins ljós á borði 24 hvar hinn stórefnilegi Hjörtur Kristjánsson (1352) stýrði svörtu mönnunum til sigurs gegn Jóni Úlfljótssyni (1794). Þá gerði Daníel Ernir Njarðarson (1319) jafntefli með svörtu gegn Elvari Erni Hjaltasyni (1772).
Að lokinni 7.umferð eru fjórir fræknir garpar efstir með 6 vinninga, þeir Jón Viktor Gunnarsson, Dagur Ragnarsson, Björn Þorfinnsson og Stefán Kristjánsson. Guðmundur Gíslason fylgir þeim eins og skugginn með 5,5 vinning.
8.umferð Skákþingsins fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld. Þá mætast á efsta borði þeir Stefán Kristjánsson og Björn Þorfinnsson, á 2.borði glíma Guðmundur Gíslason og Jón Viktor Gunnarsson, og á því þriðja mætast Björgvin Víglundsson og Dagur Ragnarsson. Skákáhugamenn eru hvattir til þess að leggja leið sína í Taflfélagið og sjá með eigin augum er úrslitastund Skákþingsins rennur upp.
Öll úrslit Skákþingsins og pörun næstu umferðar eru aðgengileg hér.