Þriðjudagsmót í TR annað kvöld



Síðasta Þriðjudagsmót vorannar verður með venjulegu sniði þriðjudagskvöldið 26. maí. Undanfarna tvo mánuði hafa mótin farið fram á netinu en nú hafa samkomutakmarkanir rýmkað allverulega og ekkert því til fyrirstöðu að halda eitt stykki atskákmót. Þetta verður í senn fyrsta og síðasta skipulagða mótið yfir borðinu í TR í maí, en svo hefst auðvitað Brim mótaröðin í júní. Þriðjudagsmótin hefjast svo aftur af krafti í ágúst eftir sumarfí.

Atskákmót hjá TR annað kvöld. Tefldar eru fjórar skákir og tímamörkin eru 15 mínútur á skákina að viðbættum 5 sekúndum á hvern leik.  Mótin eru öllum opin og reiknuð til alþjóðlegra atskákstiga. Teflt er í félagsheimili TR, Faxafeni 12 og taflmennskan hefst stundvíslega klukkan 19:30. Umsjón með mótunum hafa þeir Eiríkur K. Björnsson og Gauti Páll Jónsson. Þátttökugjald er 500kr. en frítt er fyrir 17 ára og yngri.