Stórmeistaramót T.R.: Óbreytt á toppnumFjórðu umferð Stórmeistaramóts Taflfélags Reykjavíkur lauk rétt í þessu.  Fyrir umferðina var Úkraínski ofurstórmeistarinn Mikhailo Oleksienko efstur með fullt hús vinninga og það breyttist ekki í dag því hann sat hjá þar sem alþjóðlegi meistarinn Arnar E. Gunnarsson hefur dregið sig úr mótinu eins og kunnugt er.

 

Samlandi Oleksienko, ofurstórmeistarinn Sergey Fedorchuk, lagði færeyska alþjóðlega meistarann Helga Dam Ziska með svörtu mönnunum í mikilli sóknarskák.  Sá úkraínski blés til sóknar snemma skákar með mikilli peðaframrás á kóngsvæng og hafði að lokum sigur með góðum lokahnykk þegar kóngur Helga var orðinn berskjaldaður.

 

Alþjóðlegu meistararnir, Bragi Þorfinnsson og Daninn Simon Bekker-Jensen, gerðu jafntefli í fremur rólegri skák og sömuleiðis skildu stórmeistarinn Henrik Danielsen og Fide meistarinn Sigurbjörn Björnsson jafnir.  Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson heldur áfram góðu gengi og vann baráttusigur á Þorvarði F. Ólafssyni en Guðmundur hefur nú unnið þrjár viðureignir í röð.

 

Oleksienko er efstur með fullt hús vinninga, Fedorchuk er annar með 3,5 vinning og Guðmundur þriðji með 3 vinninga.  Tvær umferðir fara fram á morgun og hefst sú fimmta kl. 11.  Þá mætast Fedorchuk og Bragi, Guðmundur og Helgi, Sigurbjörn og Þorvarður, Oleksienko og Henrik en Bekker-Jensen situr hjá.  Sjötta umferð hefst síðan kl. 17.

  • Chess-Results
  • Vefur mótsins
  • Myndir (ÁK)