Snorri hlaut 5,5 vinning í SerbíuFide meistarinn og TR-ingurinn, Snorri G. Bergson (2348), var meðal þátttakenda á nýafstöðnu Belgrade Trophy sem haldið er ár hvert og hefur verið vinsælt meðal Íslendinga.  Snorri átti ekki gott mót að þessu sinni og hlaut 5,5 vinning í níu skákum og hafnaði í 44.-62. sæti af 213 keppendum.  Árangur hans samsvarar 2072 skákstigum og lækkar hann um 32 stig.

Á umræddu móti í Serbíu byrjaði hann mjög illa og hlaut aðeins hálfan vinning gegn mun stigalægri andstæðingum í fyrstu þremur umferðunum.  Það varð til þess að hann tefldi niður fyrir sig allt mótið og þrátt fyrir að vinna fimm af síðustu sex skákunum varð niðurstaðan ekki betri.

Sjálfsagt er um að kenna æfingaleysi en Snorri hefur því miður sést lítið á mótum að undanförnu og vonandi breytist það á næstu misserum.

Auk Snorra tóku fimm Íslendingar þátt í mótinu:

  • Jón V. Gunnarsson (2454) 6v
  • Dagur Arngrimsson (2375) 6v
  • Róbert Lagerman (2358) 6v
  • Jón Árni Halldórsson (2171) 5,5v
  • Sigurður Ingason (1923) 3,5v

Sigurvegari var pólski stórmeistarinn, Marcin Dziuba (2573) með 7,5 vinning.

  • Heimasíða mótsins
  • Chess-Results