Páskaeggjum rigndi á fjölmennu lokamóti Páskaeggjasyrpunnar!Páskeggjasyrpu Nóa Síríus og Taflfélags Reykjavíkur lauk í dag en þá fór fram þriðja og lokamót syrpunnar.  Frábær mæting var í höllina enda mikið undir.  Ekki var einungis hörð baraátta um sigur í lokamótinu heldur var einnig og ekki síður undir sigur samanlagt í syrpunni.  Margir kassar fullir af gómsætum páskaeggjum frá Nóa biðu þess að verða opnaðir í mótslok fyrir alla hressu skákkrakkana sem hafa fjölmennt á mótaröðina og gert hana að einum skemmtilegasta skákviðburði hvers árs.

Mot3-27

Í yngri flokki fór Batel Mirion algjörlega á kostum og sigraði alla andstæðinga sína örugglega.  Batel sem sigraði einnig í gær undankeppni um laust sæti á Norðurlandamótið í skák hefur vakið mikla athygli á syrpunni fyrir frábæra og agaða taflmennsku.  Í öðru sæti varð annað mikið skákefni, Gunnar Erik Guðmundsson en hann sigraði á fyrstu tveimur mótum syrpunnar.  Hann hlaut 5 vinninga líkt og Elsa Kristín Arnaldardóttir en var sjónarmun fyrir ofan á stigum.  Fjölmargar stúlkur tóku þátt í yngri flokk syrpunnar í ár, flestar frá TR og er rós í hnappagat Sigurlaugar Friþjófsdóttur sem hefur byggt upp fjölmennan og sterkan hóp stúlkna sem sækja reglulega æfingar hjá félaginu.

Mot3-30

Gunnar Erik sigraði samanlagt í syrpunni eftir frábæran árangur í tveimur fyrstu mótunum.  Sigur Batel í lokamótinu fleytti henni upp í annað sætið samanlagt og þriðji varð svo Adam Omarsson.  Keppnin um sigurinn samanlagt var geysihörð og margir krakkar að sýna mjög góða talflmennsku.  Framtíðin er því björt í skákinni hjá yngstu iðkendunum.

Mot3-28

Í eldri flokki var ekki síður hart barist um sigur.  “Þungaviktarskákmennirnir” sem margir gátu ekki tekið þátt í öðru mótinu þar sem þeir voru uppteknir á Reykjavíkurskákmótinu mættu nú allir til leiks gráir fyrir járnum.  Úrslitin réðust í ævintýralegum klukkubarningi tveggja efstu manna í lokaumferðinni en þar áttust við félagarnir Björn Hólm Birkisson og Vignir Vatnar Stefánsson.  Þar hafði Björn betur og sigraði mótið með fullu húsi.  Tapið kostaði Vigni verðlaunasæti, því Jón Þór Lemery, Dawid Kolka og Bárður Örn Birkisson skutust upp fyrir hann með sigrum í lokaumferðinni.  Allir komu þeir í mark með 5 vinninga þar sem Jón Þór hafði silfrið eftir stigaútreikning.  Þriðja varð svo Dawid Kolka.  Freyja Birkisdóttir sigraði stúlknaflokkinn með 3 vinninga.

Mot3-32

Stephan Briem sem sigraði á öðru móti syrpunnar stóð sig vel í lokamótinu sem tryggði honum sigur samanlagt í syrpunni.  Aðrir tveir ungir strákar, Sæmundur Árnason og Árni Ólafsson urðu í öðru og þriðja sæti

Í lokin voru dregin út nokkur stór og gómsæt páskaegg í happdrætti og samkvæmt venju, einnig ein skákklukka.  Allir krakkarnir fóru svo í röð sem náði allan hringinn í salnum til að taka við litlu páskaeggi sem þakklætisvott fyrir þátttökuna.

Mot3-21

Líkt og undanfarin ár var þátttakan í syrpunni frábær en hátt í hundrað krakkar tóku þátt í einhverju mótanna þriggja.  Birna stóð vaktina í Birnukaffi enda nauðsynlegt að fylla á tankinn milli umferða þegar baráttan er jafnhörð og raun bar vitni.

Mot3-29 Mot3-6

Taflfélag Reykjavíkur óskar vinningshöfum til hamingju með árangurinn og þakkar öllum sem tóku þátt.  Sérstakar þakkir fær Nói Síríus fyrir frábæran stuðning!   Gleðilega páska!

Úrslit í öllum mótum syrpunnar má nálgast hér