Páll Agnar sigurvegari á Jólahraðskákmóti TR



IMG_9047

Jólasveinar kvöldsins.

Í sannkölluðu hátíðarskapi lögðu tæplega 50 manns leið sína í Faxafenið í gærkveld til að leiða saman hesta sína í Jólahraðskákmóti TR og að öllum líkindum er um að ræða fjölmennasta jólamótið í áraraðir. Tefldar voru níu umferðir með tímamörkunum 4 +2 en nokkur umræða hefur verið í gangi um hvaða tímamörk skuli almennt stuðst við í hraðskákmótum félaganna. Þykir mörgum hin opinberu Fide-tímamörk 3 +2 nokkuð knöpp þó öðrum finnist þau reyndar ósköp notaleg og vilja þá jafnvel hinn alræmda Fischer viðbótartíma burt. Líkast til er þó meirihluti skákmanna á því að viðbótartíminn sé af hinu góða og að gæði skákanna aukist. Útlit er fyrir að 4 +2 verði að mestu leyti ofan á í almennu mótahaldi hérlendis en þó má hafa í huga að lengri tímamörk þýða almennt færri umferðir.

IMG_9035

Björn Hólm Birkisson skartaði nýrri jólaklippingu í anda Billy Idol.

En víkjum þá að gangi mála. Eftir örlitla tæknihnökra þar sem viðstaddir fengu aukið ráðrúm til að gæða sér á jólakræsingum (malt og appelsín er greinilega afar vinsæll drykkur hjá landanum) var parað í fyrstu umferð og ballið hófst. Töluvert var um óvænt úrslit fyrst um sinn og strax í fyrstu umferð sigraði Aron Þór Mai (1686) Fide-meistarann Davíð Kjartansson (2329) á fyrsta borði. Á öðru borði gerði Kristófer Ómarsson (1659) slíkt hið sama gegn Fide-meistaranum Don Roberto Lagerman (2250) og það með svörtu! Harla óvenjulegt að sjá slík úrslit á tveimur efstu borðunum í móti sem þessu.

IMG_9032

Já það er sannarlega gaman að tefla! Bræðurnir Josef og Adam Omarssynir voru kátir.

Áfram gerðust óvæntir hlutir í annari umferð því á þremur efstu borðunum sigraði stigalægri keppandinn þann stigahærri; Arnaldur Loftsson (1927) vann Omar Salama (2234), Dawid Kolka (1903) lagði Pál Agnar Þórarinsson (2161) og Helgi Brynjarsson (1925) hafði betur gegn Þorvarði F. Ólafssyni (2140). Þegar á leið virtust þó hinir stigahæstu hrökkva í gírinn og um miðbik móts fór kunnugleg staða að sjást í toppbaráttunni. Að sex umferðum loknum leiddi hinn dularfulli og eitilharði Stefán Bergsson (2104) með fullu húsi vinninga sem verður að teljast ansi gott.

IMG_9036

Davíð Kjartansson var vel til hafður að vanda.

Síðustu þrjár umferðirnar skáru hinsvegar endanlega úr um lokaröð keppenda og eins og svo oft réðust úrslit ekki fyrr en í níundu og síðustu umferð. Svo fór að Páll Agnar kom á fljúgandi siglingu eftir tapið í annari umferð og gerði aðeins eitt jafntefli eftir það en vann allar aðrar viðureignir. Sigur gegn Omari í lokin tryggði honum efsta sætið með 7,5 vinning. Omar, Don Roberto og stórmeistari kvenna Lenka Ptacnikova (2031) komu næst með 7 vinninga en þeir tveir fyrrnefndu hlutu silfur og brons eftir stigaútreikning. Vel að verki staðið hjá Páli sem býr erlendis og sést því ekki mikið á mótum hérlendis. Omar og Don Roberto þarf ekki að kynna fyrir neinum enda þekktar hraðskákvélar.

IMG_9044

Árni Ólafsson hefur hér hvítt gegn Helga Brynjarssyni.

Mótið verður reiknað til alþjóðlegra hraðskákstiga og eins og gengur hækka sumir meira en aðrir á meðan aðrir lækka meira en hinir. Vert er að benda á góðan árangur hins unga Stephan Briem (1479) sem lauk keppni í 5. sæti með 6,5 vinning og stigahækkun upp á 82 Elo-stig. Sannarlega áhugasamur og eljusamur Kópavogspiltur þar á ferð.

Við í Taflfélagi Reykjavíkur þökkum öllum fyrir þátttökuna og óskum skákiðkendum nær og fjær gleðilegs nýs skákárs. Hlökkum til að hitta ykkur á nýju ári!