Öðlingamótið hafið – óvænt úrslit í fyrstu umferð



Skákmót öðlinga hófst í gærkveld en keppendur eru tæplega 30 talsins, þeirra stigahæstur Fide-meistarinn Sigurður Daði Sigfússon (2299) en næstur honum er Þorvarður Fannar Ólafsson (2195). Þá er núverandi Öðlingameistari og stórmeistarabaninn, Einar Valdimarsson (2029), á meðal þátttakenda. Úrslit fyrstu umferðar voru flest eftir bókinni og má nefna að á fyrsta borði sigraði Sigurður Daði Halldór Garðarsson (1788) örugglega eftir að hafa fengið upp sóknarstöðu að sínu skapi snemma skákar. Tvenn óvænt úrslit duttu þó inn þar sem stigamunur keppenda var í báðum tilfellum um 400 Elo-stig; Hörður Jónasson (1536) sigraði hinn margreynda Þór Valtýsson (1946) og hið sama gerði Kristján Geirsson (1492) gegn Ólafi Gísla Jónssyni (1904). Þá gerðu Kjartan Maack (2110) og John Ontiveros (1729) jafntefli. Flestar rimmur kvöldsins áttu það sameiginlegt að vera mjög jafnar og spennandi.

Önnur umferð fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld og þá mætast m.a. Kristján Örn Elíasson (1861) og Sigurður Daði, Þorvarður og Árni H. Kristjánsson (1894), sem og Einar og Magnús Kristinsson (1822). Heildarpörun ásamt úrslitum má sjá hér.