NM í skólaskák: Vignir í góðum málum 

Það er stíft teflt á Norðurlandamótinu í skólaskák sem fer fram að Bifröst yfir helgina; tvær skákir á dag föstudag til sunnudags.  Vignir Vatnar Stefánsson sigraði næststigahæsta keppanda flokksins, Danann Filip Boe Olsen, í þriðju umferð sem fór fram í morgun.  Skákin, sem lengi vel var jafnteflisleg í lokaðri stöðu í miðtaflinu, taldi að lokum 118 leiki þar sem Vignir hafði sigur eftir mikla baráttu og snúið endatafl.  Vignir Vatnar sýndi þarna enn og aftur hinn mikla baráttuanda sem hann býr yfir og í miklum tilfæringum um miðbik skákarinnar var hann alltaf að reyna að brjótast inn í herbúðir andstæðingsins.  Glæsilegur sigur hjá Vignir sem steig þarna stórt skref í áttina að Norðurlandameistaratitlinum.

 

Í fjórðu umferð mætti Vignir síðan nokkuð stigalægri andstæðingi, hinum sænska Gabriel Nguyen, og var sá sænski ekki mikil fyrirstaða fyrir Vigni sem vann örugglega í 47 leikjum eftir að hafa haft gjörunnið tafl löngu áður.

 

Fyrir síðustu tvær umferðirnar, sem fara fram á morgun sunnudag, er Vignir í efsta sæti með 3,5 vinning ásamt Fjölnisstúlkunni Nansý Davíðsdóttur.  Það er þó stutt í næstu keppendur svo lokaumferðirnar verða vafalaust spennandi.  Fimmta umferðin hefst í fyrramálið kl. 10 og þá hefur Vignir svart gegn keppandanum í þriðja sæti, hinum sænska Sixten Rosager.  Á sama tíma mætir Nansý mun stigalægri keppanda svo líklegt er að Vignir þurfi nauðsynlega sigur.

 

Stjórn Taflfélags Reykjavíkur sendir Vigni Vatnari baráttukveðjur fyrir lokasprettinn!