Meistari Napier

Napier: Gleymdi skáksnillingurinn

Einn af efnilegustu skákmeisturum allra tíma var hinn ensk-fæddi Bandaríkjamaður William Ewart Napier (1881-1952). Þegar hann var rétt um tvítugt sló hann eftirminnilega í gegn á skákmótum og var, fyrir nokkrum árum, uppreiknaður með 2.662 eló-stig, sem gerði hann þá að ellefta stigahæsta skákmanni heims á þeim tima, sem var í raun blómatími skákarinnar.

Til samanburðar má nefna, að í dag er Boris Gelfand, ellefti stigahæsti skákmaður heims, með 2.733 eló stig.

Þessi mikli skákmaður, sem hætti að tefla 24 ára gamall og hélt áfram starfi sínu sem blaðamaður en varð síðar forstjóri tryggingarfélags, varð fyrsti skákmeistari Englands, 1904, sigraði á hinu sterka skákmóti í Hastings sama ár.

Hann var líka fyrsti alþjóðlegi skákmeistarinn (sbr. “ofurstórmeistari” í dag) sem tefldi með Taflfélagi Reykjavíkur og uns Robert James Fischer ákveður að ganga í T.R., er hann sterkasti skákmaðurinn, sem T.R. ingar hafa átt, þó vissulega séu Jóhann Hjartarson og Friðrik Ólafsson líklegir kandidatar í sama sæti.

Nánar um Napier á WikiPedia.org

Napier á norðurleið

William Ewart Napier stóð í ströngu fyrri hluta árs 1902. Hann tefldi m.a. á tveimur sterkum skákmótum, þýska meistaramótinu og síðan ofurmótinu í Monte Carlo.

Hann lauk stífri dagskrá og hélt til Lundúna, þar sem hann tefldi mjög merkilega skák gegn manni, sem ekki er vitað nafnið á. Napier hafði hvítt:

1.e4 e5 2.Rf3 Rc6 3.Bb5 f5 4.Rc3 fxe4 5.Rxe4 Rf6 6.Rxf6+ gxf6 7.0–0 d6 8.d4 Bd7 9.dxe5 Rxe5 10.Rxe5 dxe5 11.Dh5+ Ke7 12.Hd1 c6 13.Bc4 De8 14.Dxe5+ fxe5 15.Bg5 mát.

Í gagnagrunninum Megabase verður hlé á skráðum skákum Napiers frá Monte Carlo mótinu og fram til 1904, þegar hann tók þátt í hinu fræga skákmóti Cambridge Springs. Talað hefur verið um, að tíminn þar á milli, frá því síðsumars 1902 og fram til 1904, sé gleymdi tíminn í skákferli hins gleymda snillings. Svo var þó ekki alveg.

Hann fór frá London síðsumars 1902 og hélt til Skotlands. Þaðan hélt William Ewart Napier um borð í Vestu 9. september og, eftir að skipið hafði stöðvað för sína á stöku stað, eins og vaninn var í þá daga, steig hann á land í Reykjavík hinn 17. september 1902.

Napier var kominn til Íslands.

Heimildir:

John S. Hilbert: Napier: The Forgotten Chessmaster (USA 1997), p. 176-177.
Dagsetningin á komu Napiers til Íslands og skipanafnið kemur frá fréttum í íslensku blöðunum, Ísafold og Þjóðólfi.

Taffifjelaz Reykjavíkur

Reykjavíkurblöðin greindu venjulega frá skipakomum og hvaða helstu farþegar hefðu verið þar um borð, ekki síst þegar erlendir menn áttu í hlut. Þjóðólfur greindi frá komu Napiers í fréttadálki 20. september 1902, en í sama blaði birtist augýsing Péturs Zóphóníassonar:

En hvað var William Ewart Napier að gera á Íslandi? Jú, það mál á sér nokkra forsögu.

Napier og Ísland

Málavextir voru þeir, að við stofnun Taflfélags Reykjavíkur haustið 1900 sendi velgjörðarmaður íslenskrar skáklistar, Willard Fiske, góðar gjafir til Taflfélagsins, þar á meðal tvenn verðlaun, annars vegar fyrir besta skákdæmið og hins vegar fyrir bestu skákina í sérstöku verðlaunamóti. Hvorttveggja yrði birt í þýska skákritinu Deutsche Scachzeitung, sem var þá eitt virtasta skáktímarit heims. Þetta hefur verið rakið hér áður og óþarfi að endurtaka.

Sigurskákin var tefld í árslok 1900 á milli Sigurðar Thoroddsens verkfræðings og Péturs Zóphóníassonar, og birtist hún í þýska skáktímaritinu, vísast ásamt fréttum af Taflfélagi Reykjavíkur og ástæðum þess, að hið virta tímarit væri að birta skák óþekktra skákmanna og þar að auki ekki alltof vel teflda af hálfu annars aðilans. En úr því Fiske átti þar jafn greiðan aðgang og raun bar vitni (en hann dvaldi á í Berlín), hefur blaðið vísast greint frá stofnun Taflfélagsins nokkru fyrr, eins og ráða má af heimildum.

En hið þýska skáktímarit var útbreitt víða um heim og mikið lesið meðal skákmanna hvarvetna, m.a. í Bretlandi, en þar var greint frá stofnun Taflfélags Reykjavíkur í British Chess Magazine. Napier, sem þá var ritstjóri skákdálks hins virta blaðs Pittsburg Dispatch, greip fréttina á lofti og greindi frá því, að “British Chess Magazine segi fréttir af íslensku skákfélagi, sem hafi 40 meðlimi og haldi skákmót!” í dálki sínum 15. apríl 1901.

Fréttirnar voru fljótar að berast frá Þýskalandi til Bretlands og þaðan áfram til Pittsborgar, þar sem Napier sat. En nafn félagsins þó brenglast dálítið á leiðinni og nú hét það “Taffifjelaz Reykjavikur”. Napier fannst nafnið dálítið skondið og vísaði til orða Mark Twains um hvernig germönsk orð gætu stundið verið furðuleg. (Hilbert, bls. 177-178)

Hvernig á að tefla Sikileyjarvörn?

Napier hafði greinilega ekki enn fengið í hendur vinningsskák Péturs Zóphóníassonar gegn Sigurði Thoroddsen verkfræðingi, því það var ekki fyrr en í skákdálki hans 10. mars 1902, að hennar var getið og þá undir titlinum: “A Game from Iceland”, án nokkurra fleiri vísbendinga um, hverjir þessir menn væru.

Napier hafði þá tekið þátt í þýska “Kongressinu”, afar sterku skákmóti, og hefur þá vísast rekist á vinningsskák Péturs í Deutsche Scachzeitung, litist vel á og sent hana heim.

En upphafsleikirnir í skák Sigurðar og Péturs voru eftirfarandi:

1.e4 c5 2.d4 cxd4 3.Dxd4 Rc6 4.Dc3 e6 5.a3 a6 6.Rf3 b5 7.Bd2 Bb7 8.Bd3 Rf6 9.0–0 Dc7 10.He1 Hc8 11.b4 Rg4 12.Db2 Bd6 13.g3 Rce5.

Gegn “Center Counter” Sigurðar beitti Pétur “Paulsen-uppstillingu”, mjög svipaðri þeirri, sem vinsæl er í dag. Slíkt hafði Napier aðeins einu sinni áður teflt, þegar hann var 14 ára og þá í fjöltefli gegn sterkum meistara. Þeirri skák tapaði hann illa og hafði upp frá því illan bifur á 2…e6 í Sikileyjarvörn, eða almennt því að leika e6 snemma tafls í Sikileyjarvörn. Þegar hann á annað borð lék Sikileyjarvörn, varð Drekaafbrigði, með 2…Rc6, frekar fyrir valinu. En hér hafði hann séð merkilega uppstillingu hjá Pétri. En gæti hún verið góð?

Hann fór frá Þýskalandi og til Lundúna, þar sem hann tefldi nokkrar gamniskákir gegn minna þekktum skákmönnum, en fór þaðan til Skotlands. Í Edinborg tefldi hann við hina innfæddu, m.a. nokkrar skákir við Skotlandsmeistarann Daniel Mills, sem þá var rúmlega fimmtugur. Meðal þeirra skáka, sem varðveittust frá þeim tveimur, hófust báðar á Sikileyjarvörn, 2…e6, og birtust í Pittsburg Dispatch með skýringum Napiers. Greinilegt er, að hann hafði tekið 2…e6 í sátt og, það sem meira var, hóf sjálfur að beita honum og það með töluvert góðum árangri.

Væri ekki ágætt að halda því fram, að Pétur og Mills hafi hjálpast að við að sýna hinum mikla meistara það svart á hvítu, að 2…e6 er án alls vafa sterkasti leikur svarts í stöðunni!

En hvers vegna til Íslands?

Við vitum ekki fyrir víst, hvers vegna William Ewart Napier ákvað að sigla til Reykjavíkur. Hann hafði ferðast til Lundúna og þaðan til Edinborgar. Hann vissi jú af tilveru skákmanna og skákfélags í Reykjavík, en lítið meira. Sigurskák Péturs Zóphóníassonar gegn Sigurði verkfræðingi Thoroddsen getur varla ein og sér hafa valdið því, að Napier sigldi til Íslands, og varla heldur sú frétt, að 40 skákmenn væru skráðir í taflfélagið í Reykjavík.

En Napier var í Edinborg, en einskonar útborg hennar var borgin Leith, sem var, ásamt Kaupmannahöfn, gluggi Íslands til útlanda. Íslensk skip sigldu gjarnan til Leith á leiðinni til Kaupmannahafnar, eða sigldu þangað sérstaklega, enda voru þá töluverð viðskipti milli Íslands og Bretlands. Hér höfðu verið fjölmargir Bretar á fer til verslunar, t.d. Louis Zöllner, sem stundaði margvisleg viðskipti hér, Ward fiskkaupmaður, Slimon kaupmaður og margir fleiri. Skip þeirra sigldu héðan til Leith.

Sumarið 1902 kom Ward fiskkaupmaður til Íslands, en agent hans hér, eins og marga annarra Breta, var Jón Vídalín, sem var einskonar konsúll Breta í Reykjavík og nágrenni, en hann hafði þá nýverið gerst forstjóri botnvörpungaútgerðar á Akranesi. Jón Vídalín var þá meistaraflokksmaður í skákdeildum Mið-Englands og töluvert sleipur, en þá iðju hafði hann víst lært í Bretlandi.

En síðsumars 1902 er Vídalín vísast staddur í Leith/Edinborg eins og venjulega á þessum árstima og til að drepa tímann milli viðskiptafunda hefur hann vísast farið inn í klúbbana í Edinborg, þar sem telft var og spilað bridge, eins og hann var vanur að gera, ef hann fór ekki suður til Hereford eða annarra staða sunnan skosku mæranna.

Vísast hefur Jón Vídalín heyrt af því, að þar væri staddur einn af frægustu skákmönnum heims, William Ewart Napier. Slíkt spurðist fljótt út og má ætla, þó heimildir skorti fyrir staðfestingu þess, að Napier hafi tekið skák við Vídalín, eða að minnsta kosti rætt við hann um Ísland, sérstaklega skáklífið þar.

Jón Vídalín hefði getað sagt frá mörgu. Stofnun T.R. 1900 hafði orðið til þess, að taflfélög fóru nú að spretta upp. Taflfélag Akureyrar var stofnað 1901, og félag á Ísafirði sama ár og nokkur minni á smærri stöðum. Jafnvel í Grímsey, smáey lengst norður í hafi, væri skáklíf með blóma! Þetta hefur vísast vakið athygli Napiers. Hvernig stæði á því, að í fátæku og fámennu landi, lengst norður í höfum, væri skáklíf með slíkum blóma?

Vídalín hefur e.t.v. getað sagt honum, að ástæða þessa alls héti Willard Fiske.

Við vitum auðvitað ekki fyrir víst, að Napier hafi hitt Vídalín. Við vitum heldur ekki fyrir víst, hvort Vídalín hafi akkúrat á þessum tíma verið í Edinborg, þó það sé vissulega líklegt. Napier hefði líka getað hitt Ward fiskkaupmann, sem vissulega var í Leith/Edinborg um þetta leyti, en engum sögum fer af því, hvort Ward hafi kunnað skák. Það eru vissulega margir fyrirvarar á þessari “sögu”, en atburðarásin hefur vísast verið einhvern veginn svona, enda er frekar ólíklegt að Napier skyldi hafa ákveðið að fara til Íslands upp úr þurru.

Napier sigldi síðan með skipinu Vestu frá Skotlandi til Reykjavíkur, með viðkomu á nokkrum stöðum.

Napier stígur á land

Stigið á land í Reykjavík

William Ewart Napier var kominn til Reykjavíkur og náðu taflfélagsmenn sambandi við hann jafnóðum. Hann kom farangri sínum í land frá Vestu og leitaði sér gistingar.

Þar hefur hann vísast fengið ráðleggingar samferðarmanna sinna um borð, en meðal þeirra voru Björn stúdent Magnússon, sem komið hafði með skipinu frá Kaupmannahöfn, og á Austfjörðum hafði séra Magnús Blöndal Jónsson á Vallanesi og tvær dætur hans, ungfrú Regína Björnsdóttir, N.C.E. Hansen agent og fjöldi kaupafólks.[1]

Undir venjulegum kringumstæðum hefði hann fengið sér herbergi á Hótel Íslandi, og jafnvel búið þar næstu misserin. En þess þurfti ekki. Á ferðunum yfir hafið myndaðist gjarnan kunningsskapur hjá farþegunum. Slíkt er vel þekkt úr sögu millilandaferða til og frá Íslandi.

Við vitum ekki í raun, hvort Napiers stofnaði vináttubönd við einhverja farþegana, svo sem ungfrúnum um borð. En ljóst er, að samferðarmaður hans, Hansen agent, útvegaði honum húsnæði.

Í manntalsskrá Reykjavíkurborgar, sem tekin var saman í október 1902, er William Eward [sic] Napier skráður til heimilis að Lækjargötu 6a, húsi séra Halldórs Briems, fyrrverandi túlks, barnakennara og prests í Nýja-Íslandi.

Halldór var þá að kenna í gagnfræðiskólanum á Akureyri, en kona hans, Susie Briem, fædd Taylor, bjó í Lækjargötunni ásamt syni þeirra, V. Sigurði Halldórssyni Briem (síðar tónlistarkennara), Láru Benediktsdóttur vinnukonu og jafnöldru Napiers, og umræddur Hansen agent.

Hansen agent hefur því útvegað þessum nýfundna vini sínum húsnæði og vísast jafnframt annast það, að koma honum í kynni við skákmennina í Reykjavík. Það hefur gerst fljótt, því sama dag og Reykjavíkurblöðin birtu fréttir af komu Napiers, að Pétur Zóphóníasson, fyrir hönd Taflfélags Reykjavíkur, auglýsti skákfund með hinum erlenda snillingi.

William Ewert Napier var kominn inn í íslensk skáklíf og lét strax að sér kveða.

Lækjargata 6a

Napier var kominn í skrautlegt samsæti. Inni á heimili Susie Briems var vinnukonan Lára Benediktsdóttir frá Bakka í Arnarfirði. Hún var nánast jafnaldra Napiers, varð 20 ára gömul mánuði áður, saklaus sveitastelpa, nýkomin til Reykjavíkur úr sveitasælunni. Hún var ein þeirra mörgu stúlkna, sem réði sig í vist til „heldra fólks” í bæjunum og leitaði betra lífs, sér í lagi með því að finna sér stöndugan eiginmann.

Út um herbergisgluggann (húsið er næstlengst til vinstri á myndinni hér að ofan) hefur Napier vísast getað séð aðra jafnöldru sína ganga inn og út, en Sigríður Bjarnadóttir, f. 1881, hafði þá komið til náms í Reykjavík nokkrum vikum áður. Hún bjó í Lækjargötu 6b, hjá Guðríði Gunnarsdóttur saumakonu, sem hafði búið í Reykjavík í tæp tuttugu ár, frá því hún kom þangað rétt um tvítugt, 20 árum áður.

Hann hefur þá a.m.k. ekki þurft að sækja langt félagsskap við veikara kynið, hafi hann kært sig um, svo ekki sé talað um þær stúlkur, sem höfðu orðið samferða honum yfir hafið með Vestu.

En var Napier í kvennafansi? Í landsblöðunum á þessum tíma var gjarnan getið um, að íslenskar stúlkur væru gjarnar á að safnast að þeim útlensku “séntilmönnum”, sem hingað kæmu, hvort sem væri til stuttrar dvalar eða búsetu. Slík mál voru m.a. rædd í M.A. ritgerð þess, sem þetta skrifar. Í öllu falli er nánast öruggt, að Napier hafi dregið verulega að sér athygli Reykjavíkurstúlknanna, en hitt er svo allt annað mál, hvort hann hafi “fallið í freistni” eður ei.

Halldór Briem

Fjölskyldufaðirinn á því heimili, þar sem Napier dvaldi, hét Halldór Briem, af hinni frægu Briem ætt, sem var bæði virt og valdamikil á þessum tíma. Hann hafði útskrifast með guðfræðipróf 1875 og í framhaldinu verið heimiliskennari hjá foreldrum sínum, sýslumannshjónunum á Reynistað í Skagafirði.

Hann fór síðan á vit ævintýranna og gerðist túlkur íslenskra landnema í Vesturheimi 1876 og aftur 1877. Þá sat hann um kyrrt þar vestra, gerðist barnakennari í Lundar við

Íslendingafljót og síðan prestur í klofningskirkju séra Jóns Bjarnasonar, sem hafði neitað að breyta íslenskum kirkjuhefðum til að þóknast norsku synódunni í Chicago, en hún áskildi sér kennivald yfir lúterskum í Vesturheimi.

Halldór vildi þó ekki ílengjast í Kanada og sótti um kennarastöðu að Möðruvöllum með hjálp góðra manna. Það gekk erfiðlega til að byrja með, en hafðist að lokum. Hann hélt því heim á leið og tók með sér Súsönnu, stjúpdóttur Johns Taylors, sem hafði verið bjargvættur Íslendinganna í Nýja-Íslandi á upphafsárunum landnámsins.

Súsanna, eða Susie eins og hún kallaði sig, hafði þá veikst af bólusótt, en slík plága hafði gengið yfir Íslendingabyggðir og hafði fengið þá fyrirskipun frá lækni, að forðast sterkt sólarljós. Það var eðlilega mun auðveldara á Íslandi, en í Kanada.

Þegar Napier kom til Reykjavíkur 1902 var Halldór þá við kennslustörf norðan heiða, en hann starfaði þá sem kennari við gagnfræðiskóla Akureyrar, og ennfremur að taka saman Ágrip af Íslandssögu, sem kom út 1903. Hann var því fjarverandi, meðan Napier dvaldi á heimili hans.

En þrátt fyrir, að Halldór hafi í mörgu verið mjög merkilegur maður og stórættaður, eins og menn nefna það, var kona hans í raun og veru mun merkilegri, ef horft er til sögunnar í víðara samhengi.

Í vist hjá frú Susie

Susie Briem

Þar eð Halldór Briem, heimilisfaðirinn að Lækjargötu 6a, var norðan heiða við kennslu, var húsfreyjan á heimilinu, frú Susie (Susanna) þar æðsta valdið.

Frú Susie Briem var ein af virtustu konum Reykjavíkur og hafði verið tekin algjörlega inn í samfélagið í Reykjavík. Ástæðan var sú, að landsmenn viðurkenndu þá útlendinga, sem hér settust að og aðlöguðu sig háttum hinna innfæddu. Það gerði Susie og var um hana sagt, að þar hafi íslenska þjóðin fengið góðan liðsauka. Hún talaði ágæta íslensku og las mikið, bæði nýjar bækur og gamlar. Hún var jafnframt virk í margskonar starfi, þrátt fyrir að vera tæp á heilsu, en hún hafði veikst illa fyrsta árið sitt í Nýja-Íslandi.

Vísast hefur enskur uppruni frú Susie og kunnátta hennar í íslensku orðið þess valdandi, að Napier leigði hjá henni herbergi, svo ekki sé minnst á þátt meðleigjanda hans. Napier lærði hér íslensku og safnaði töluverðum upplýsingum um land og þjóð, eins og Pittsburg Dispatch, blaðið sem Napier starfaði hjá, greindi frá í desember 1902. (Hilbert, bls. 177). Vísast hefur frú Susie verið honum innan handar og sennilega sjálf tekið að sér hlutverk uppfræðarans.

Af breskum aðalsættum

Afi frú Susie hét Richard Taylor og var flotaforingi í breska sjóhernum, staðsettur í Vestur-Indíum.Hann hafði komið sér upp stórum búgarði, þar sem fjöldi þræla vann erfiðustu störfin. En eins og svo margir aðrir hafði hann farið illa út úr því, þegar þrælahald var loksins afnumið og seldi hann eigur sínar og flutti til Kanada.

Eiginkona Richards Taylors var af hertogaættinni af Norfolk, sem hefur jafnan verið kaþólskrar trúar. Móðir hennar hafði verið gerð arflaus fyrir að giftast manni, sem ekki var kaþólskur, en að lokum tókust sættir. Frú Taylor hélt því með fjölskylduna til Englands í heimsókn til ættingja sinna og það var þar, að Susie fæddist.

Þar sem þau Susie Briem og William Ewart Napier sátu í stofunni að Lækjargötu 6a og ræddu saman, hafa þau haft nóg að tala um. Saga þeirra var að mörgu leyti ekki svo ólík. Bæði voru af enskum ættum og fæddust í Englandi, en ólust upp í Vesturheimi; Susie í Kanada en Napier í Bandaríkjunum.

Hollywood

Ætt Susie Briem tengdist Hollywood, en systir hennar, Caroline, var gift Sigurði
Kristóferssyni frá Ytri-Neslöndum við Mývatn. Hann hafði flust vestur um haf 1873 og verið í hópi fyrstu íslensku landnemanna í byggðinni Argyle í Manitoba. Börn Sigurðar tóku upp engilsaxneska útgáfu af eftirnafni hans, Christopherson. Yngstur bræðranna var Kjartan, sem varð fasteignasali í San Francisco og faðir leikkonunar Eileen Christy, sem var um tíma vel þekkt í Hollywood og á Broadway. Meðal annars lék hún Jeanie McDowell í “I Dream og Jeanie” (1952), Thunderbirds (1952), á móti John Derek og John Drew Barrymore, og fleiri myndum í upphafi sjötta áratugarins. Hún hætti síðan kvikmyndaleik, en sneri aftur 1965 til að leika og syngja hlutverk Julie í “Carousel”, söngleik Rodgers og Hammersteins, frægustu söngleikjahöfunda Bandaríkjanna. Já, alls staðar leynast þessir Íslendingar!

Nonni

Frú Susie Briem tengdist einnig þjóðþekktum Íslendingum, utan Briems-ættarinnar. Föðurbróðir hennar, John Taylor, hafði alið hana upp, frá því að móðir hennar lést. Hann var þrígiftur, en síðasta kona hans var frú Sigríður, móðir séra Jóns Sveinssonar, „Nonna”. Þannig voru Susie og Nonni í raun stjúpsystkin.