Laugardagsæfingarnar hefjast 7. septemberLaugardagsæfingarnar, barna- og unglingaæfingar Taflfélags Reykjavíkur, hefjast næstkomandi laugardag. Fyrirkomulag verður með svipuðum hætti og í fyrra. Aðgangur að æfingunum er ókeypis hvort sem er fyrir félagsmenn eða utanfélagsmenn en félagsmenn fá aukna kennslu og þjálfun.

 

Þjálfun og kennsla á laugardagsæfingunum er í höndum þaulreyndra og sterkra skákmanna og er aðgangur ókeypis. Æfingarnar henta byrjendum jafnt sem lengra komnum og er börnum velkomið að mæta og fylgjast með til að byrja með ef þau eru ekki tilbúin að taka beinan þátt strax.

 

Æfingarnar fara fram í húsnæði félagsins að Faxafeni 12 á laugardögum yfir vetrartímann:

 

12.30-13.45 Skákæfing stúlkna/kvenna

Umsjón með æfingunum er í höndum Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur.

 

14.00-15.15 Skákæfing fyrir börn fædd 2001 og síðar (opnar æfingar)

Á þessum tíma verður teflt æfingamót með 5 mín. umhugsunartíma. Kl.15 verður hressing að venju og kl. 15.15 er skákæfingunni lokið fyrir þau sem ekki eru félagsmenn í TR.

 

15.15-16.00 Félagsæfing fyrir börn fædd 2001 og síðar

TR-krakkarnir tefla æfingamótið í fyrri hlutanum (14.00-15.15), og halda svo áfram í seinni hluta Laugardagsæfingarinnar sem er frá kl. 15.15 – 16.00. Þetta er í raun önnur æfing með öðru sniði. Um er að ræða félagsæfingu Taflfélags Reykjavíkur. Í þessum seinni hluta verður farið yfir helstu grunnatriðin í skák á skemmtilegan hátt með dæmum og þrautum. Farið verður yfir taktískar aðgerðir á skákborðinu svo sem leppanir, fráskákir, mátstef skoðuð og grunnrelgur endatafla. Með þessari æfingu eflum við kennsluhlutann og gefa krökkunum betri innsýn inn í töfraheim skáklistarinnar.

 

Í fyrra var boðið upp á nýtt og ítarlegt námsefni sem ber heitið “Í uppnámi”, og vakti mikla lukku.  Í vetur verður áfram boðið upp á þetta vandaða efni við skákkennsluna.

Öll börnin sem sækja  félagsæfingar TR fá heftin sem við náum að komast yfir í vetur gefins. Frá því í fyrra bætast nú við 6 hefti um endatöfl, en auk þess er nú allt efnið orðið aðgengilegt kennurum Taflfélagsins í chessbase gagnagrunnum. Ítarlegar skýringar fylgja þar öllum dæmum og auk þess er um þrjár klukkustundir (!) af videoefni sem fylgir hverjum hluta. Þá hefur allt útlit efnisins verið tekið í gegn og stórbætt. Alls er um 26 hefti að ræða, og skiptast þau í fjóra flokka:

 

1. Lærðu að tefla

Um er að ræða sex hefti sem fjalla um undirstöðuatriðin í skák fyrir byrjendur sem eru að taka sín fyrstu skref í skáklistinni.

 

2. Taktík

Hér eru teknar fyrir allar helstu taktísku aðgerðirnar sem beitt er í skák. Gafflar, leppanir, frákskákir, millileikir o.s.frv. í átta vönduðum heftum.

 

3. Mátstef

Er tvímælalaust það efni sem krakkarnir hafa hvað mest gaman af að læra. Öll helstu mátstefin eru hér skoðuð í 6 heftum.

 

4. Endatöfl

Er nýjasta viðbótin í ritröðinni Í uppnámi. Farið er í gegnum öll helstu atriðin sem þarf að kunna þegar út í endatafl er komið. Andspæni, fjarlægt andspæni, þríhyrningsreglan o.s.frv.

 

Umsjónamenn æfinganna eru þau Björn Jónsson, Sigurlaug Friðþjófsdóttir og Einar Sigurðsson.