Hjörvar Steinn með vinningsforskot á WOW air mótinuStórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson sigraði kollega sinn, Hannes Hlífar Stefánsson, í fjórðu umferð Wow air mótsins – Vormóts Taflfélags Reykjavíkur sem fram fór á mánudagskvöld.  Hjörvar leiðir því mótið enn með fullt hús vinninga en annar er alþjóðlegi meistarinn Dagur Arngrímsson sem hafði betur gegn Fide meistaranum Ingvari Þór Jóhannessyni.  Sjö keppendur koma næstir með 2,5 vinning, þar á meðal stórmeistararnir Hannes Hlífar, Stefán Kristjánsson og Þröstur Þórhallsson.

Í B-flokki er Magnús Pálmi Örnólfsson efstur með 3,5 vinning en hann gerði jafntefli við Torfa Leósson sem kemur næstur með 3 vinninga ásamt Hrafni Loftssyni sem vann Jón Trausta Harðarson.  Þrír keppendur fylgja í humátt með 2,5 vinning og er hinn ellefu ára Íslandsmeistari barna, Vignir Vatnar Stefánsson, þar á meðal.  Þess má geta að Vignir Vatnar er enn taplaus í mótinu.

Fimmta umferð fer fram næskomandi mánudagskvöld og hefst kl. 19.30.  Þá mætast m.a. Hjörvar Steinn og Dagur, Þröstur og Hannes sem og Ingvar Þór og Stefán.  Þá glímir Fide meistarinn Sigurbjörn Björnsson við stórmeistarann Friðrik Ólafsson.  Í B-flokki verður toppbarátta á milli Magnúsar og Hrafns og þá mætir Torfi liðsfélaga sínum úr TR, Kjartani Maack, sem er ríkjandi skákmeistari félagsins.  Hinn ungi Vignir Vatnar spreytir sig gegn Arnaldi Loftssyni og verður fróðlegt að sjá hvort Vignir heldur áfram góðu gengi.

  • Úrslit, staða og pörun: A flokkur   B flokkur
  • Skákir: 1  2  3  4  5  6  7
  • Myndir
  • Wow air mótið