Henrik Danielsen sigraði á 9. Grandprix mótinu



Henrik Danielsen stórmeistari sigraði á 9. og næstíðasta móti Grand Prix mótaraðar Fjölnis og TR síðastliðið fimmtudagsmót.

Henrik hlaut átta vinninga af níu mögulegum. Davíð Kjartansson, sigursælasti skákmeistari Grand Prix mótaraðarinnar, varð í öðru sæti með sjö og hálfan vinning. Davíð tókst þó að sigra Henrik, en tap fyrir Jóhanni H. Ragnarssyni og jafntefli við Vigfús Vigfússon kom í veg fyrir sigur að þessu sinni. Jóhann H. Ragnarsson, Garðbæingurinn sterki, varð að láta sér lynda þriðja sætið að þessu sinni með sjö vinninga af níu. 

Röð efstu manna:

  1. Henrik Danielsen            8 /9
  2. Davíð Kjartansson          7,5
  3. Jóhann H.Ragnarsson    7
  4. Vigfús Ó Vigfússon        6
  5. Daði Ómarsson              5
  6. Kristján Ö. Elíasson       5

Skákstjórninni skiptu þeir á milli sín Helgi Árnason og Óttar Felix Hauksson.

10. og síðasta Grand Prix mótið í þessari mótaröð veður haldið n.k. fimmtudagskvöld 13. desember í Skákhöllinni í Faxafeni. 

Það verður sérstök jólastemning á staðnum, boðið uppá piparkökur og jólaöl ásamt sérlega góðum tónlistarverðlaunum frá 12 tónum, Geimsteini, Senu, Smekkleysu og Zonet. Einnig verður þeim einstaklingi sem hæst samanlagt skor úr 10 fyrstu mótunum veittur glæsilegur ferðavinningur á Politiken Cup. 

Fjölnir og TR hafa staðið fyrir Grand Prix mótaröðinni sem hefur sýnt sig að vera velkomin viðbót við skákflóruna á höfuðborgarsvæðinu. Allir skákmenn úr öllum félögum eru sannarlega velkomnir. 

Ný Grand prix mótaröð hefst síðan eftir áramótin með glæsilegum verðlaunum, en nánar verður greint frá því á heimasíðu TR og skak.is

ÓFH