Helgi Áss Grétarsson er Hraðskákmeistari Reykjavíkur 2018Það var fjörlega teflt síðastliðið miðvikudagskvöld er Hraðskákmót Reykjavíkur var haldið í salarkynnum Taflfélags Reykjavíkur. Margir keppendur gengu vasklega fram, enginn þó meira en stórmeistarinn brosmildi Helgi Áss Grétarsson.

Helgi Áss lék á alls oddi og vó mann og annan langt fram eftir kvöldi, og voru sumir andstæðingarnir klofnir í herðar niður. Helgi sem hefur brýnt skákkuta sína af kostgæfni að undanförnu vann átta fyrstu skákir sínar og hafði þá þegar tryggt sér sigur í mótinu. Margt benti til þess að Helgi myndi leika eftir afrek Guðmundar Gíslasonar sem árið áður vann mótið með fullu húsi. Það átti þó ekki fyrir Helga að liggja að ná fullu húsi að þessu sinni því í lokaumferðinni kom andstæðingur loks á hann höggi og var þar á ferð kotrurefurinn Róbert Lagerman sem með sigrinum hífði sig upp í 4.sæti með 6 vinninga.

Bronsverðlaunin komu í hlut FIDE-meistarans Sigurbjörns Björnssonar sem nokkrum dögum áður missti með naumindum af bronsverðlaunum á Skákþingi Reykjavíkur eftir stigaútreikning. Sigurbjörn hlaut 6,5 vinning og tryggði 3.sætið með sigri í síðustu umferð á FM-kollega sínum Vigni Vatnari Stefánssyni.

Í 2.sæti varð CM Bárður Örn Birkisson með 7,5 vinning. Bárður Örn tapaði aðeins einni skák, gegn Helga Áss, auk þess sem hann gerði eitt jafntefli, við Sigurbjörn í næst-síðustu umferð. Bárður nældi sér í mestu stigahækkun allra keppenda á mótinu en hann hækkar um 61 hraðskákstig.

Helgi Áss Grétarsson er Hraðskákmeistari Reykjavíkur árið 2018. Þetta er í annað sinn sem Helgi Áss hreppir titilinn en síðast gerðist það árið 1994, fyrir hvorki meira né minna en 24 árum síðan. Helgi Áss hefur sést meira við taflborðin að undanförnu og er það afar ánægjulegt fyrir íslenskt skáklíf, bæði vegna þess að ungir skákmenn geta lært mikið af Helga en ekki síður vegna þess að Helgi hefur ennþá heilmikið fram að færa á sjálfu taflborðinu.

Upplýsingar um lokastöðu og einstök úrslit má finna á Chess-Results.

received_10215337024928708

Verðlaunahafar á Hraðskákmóti Reykjavíkur 2018 (f.v.): FM Sigurbjörn Björnsson, GM Helgi Áss Grétarsson og CM Bárður Örn Birkisson.