Hvers vegna Taflfélag Reykjavíkur?

Með skráningu í Taflfélag Reykjavíkur hjálpar þú okkur að halda úti öflugu starfi fyrir börn og unglinga, byrjendur og lengra komna.  Félagið, sem er elsta og stærsta skákfélag landsins, stendur fyrir tugum skákmóta- og viðburða á ári hverju auk tæplega tvöhundruð skákæfinga þar sem fram fer þjálfun og kennsla fyrir börn og unglinga.

tr

Með dyggum stuðningi félagsmanna ásamt öflugum bakhjörlum er félaginu kleyft að bjóða upp á kennslu og þjálfun endurgjaldslaust.  Sem félagsmenn fá börnin aukinheldur ítarlegri og lengri kennslu frá þjálfurum okkar.

Sértu fullgildur félagsmaður færðu atkvæðisrétt á aðalfundum þar sem þú getur haft áhrif á innra starf félagsins.  Fréttablað TR er sent öllum félagsmönnum þar sem fjallað er um viðburðina, skákmennina og æskulýðsstarfið svo eitthvað sé nefnt.

tr

Í Taflfélagi Reykjavíkur ríkir öflug liðsheild sem skín skærast þegar félagið sendir fjölda liða til leiks á Íslandsmót skákfélaga ár hvert.  Viðamikið og metnaðarfult grasrótarstarf gerir það að verkum að við njótum þeirra forréttinda að geta sent fjölda barnaliða á Íslandsmótið þar sem yngsta kynslóðin heldur uppi merkjum félagsins og öðlast dýrmæta reynslu.  Í gegnum tíðina höfum við í TR verið þeirrar gæfu aðnjótandi að geta leitað í hóp okkar öflugu félagsmanna til að tefla fyrir hönd félagsins.

Við fögnum öllum nýjum félagsmönnum og sérstaklega hvetjum við ykkur, foreldrar og forráðamenn, að fylgjast með barna- og unglingastarfinu okkar, því þar liggur hin mikilvæga grasrót.  Þar er grunnurinn lagður.  Þar er framtíðin.

Árgjaldið er frítt fyrir börn (17 ára og yngri) og mjög hóflegt fyrir þá fullorðnu, aðeins 5.000 krónur.

Komdu og taktu þátt í skemmtilegu starfi með okkur. Hjálpaðu okkur að gera gott skákfélag enn betra.  Við þökkum þér fyrir stuðninginn og hlökkum til að vinna með þér!