Gagnaveitumótið – Haustmót T.R. 2013 hafið



Gagnaveitumótið – Haustmót Taflfélags Reykjavíkur 2013 hófst í dag með setningu Björns Jónssonar, formanns félagsins.  Í setningarræðunni, sem fór fram undir ljúffengum vöffluilmi frá Birnu-kaffi, þakkaði formaður skákmönnum sérstaklega fyrir hinn mikla áhuga og ástundun sem Haustmótið hefur fengið í gegnum árin.  Í ræðunni kom einnig fram að Haustmótið hefur verið haldið sleitulaust frá árinu 1934 ef frá eru skilin þrjú ár á fimmta áratugnum.

Þá kynnti formaður til leiks nýjasta bakhjarl félagsins, Gagnaveitu Reykjavíkur, og þakkaði veglegan stuðning sem gerir Hautmótið enn veglegra en ella.  Þá nefndi hann keppendur í A-flokki og kvað það sérstakt ánægjuefni að stórmeistarinn Stefán Kristjánsson skyldi vera á meðal keppenda.  Að því búnu lék framkvæmdastjóri Gagnaveitunnar, Birgir Rafn Þráinsson, fyrsta leiknum í viðureign Stefáns og Sverris Arnar Björnssonar.

 

Þar með má segja að ný skákvertíð hafi hafist en Haustmótið markar gjarnan tímamót í íslensku skáklífi og höfðu viðstaddir það á orði að nú fyrst mætti vetur konungur hefja innreið sína.  Þrátt fyrir fáeinar frestaðar viðureignir vegna sigurgöngu íslenskra skák-ungmenna á erlendri grundu iðaði Skákhöll T.R. af lífi og baráttan var hörð sem aldrei fyrr enda fer lítið fyrir hinni alkunnu vináttu skákmanna þegar hinir 32 taflmenn hefja för sína um hina mikilvægu 64 reiti.  En, eins og ávallt, gleymist allur fjandskapur að lokinni orrustunni og keppendur innsigla handaband og ganga sáttir, missáttir þó, frá borðum.  Lítum nánar á flokkana fjóra og úrslit fyrstu umferðar.

 

Í A-flokki er það ekkert launungarmál að stórmeistarinn Stefán Kristjánsson er sigurstranglegastur en líklegastur til að veita honum keppni er alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson.  Stefán er langstigahæstur í flokknum með tæp 2500 Elo stig, Jón Viktor kemur næstur með ríflega 2400 stig og þriðji í röðinni er Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson með rétt yfir 2300 stig.  Langt er í næstu menn sem eru reynsluboltinn og norðlendingurinn Gylfi Þórhallsson, Sverrir Örn Björnsson, Stefán Bergsson, einnig að norðan, og Kjartan Maack sem að þessu sinni er einni TR-ingurinn í A-flokknum.  Þá koma Dagur Ragnarsson, Jóhann H. Ragnarsson og Oliver Aron Jóhannesson og verður sérstaklega áhugavert að fylgjast með hinum ungu og efnilegu Fjölnispiltum, þeim Degi og Oliver, þreyta frumraun sína í flokki þeirra bestu en sá fyrrnefndi sigraði í B-flokki í fyrra en Oliver hafnaði í 3. sæti.

 

Svo fór að Stefán Kr, Jón Viktor og Einar Hjalti unnu allir sínar viðureignir; Stefán sigraði Sverri, Jón Viktor lagði Stefán Bergsson og Einar Hjalti hafði betur gegn Kjartani.  Þá vann Jóhann góðan sigur með svörtu gegn Gylfa sem er nokkuð hærri á stigum.  Viðureign Dags og Olivers var frestað þar sem þeir taka um þessar mundir þátt í Norðurlandamóti grunnskólasveita þar sem þeir gerðu sér lítið fyrir og tryggðu sér Norðurlandameistaratitilinn fjórða árið í röð.

 

Eins og svo oft er B-flokkurinn stigalega mjög jafn þar sem stigamunur á milli stigalægsta og stigahæsta keppandans nær ekki 200 stigum og nánast ómögulegt er að spá fyrir um gang mála.  Á meðal keppenda eru landsliðskonurnar Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Tinna Kristín Finnbogadóttir og mun einhver þeirra vafalaust blanda sér í toppbaráttuna.

 

Úrslit í B-flokki urðu þau að Garðbæingurinn Páll Sigurðsson sigraði Víkinginn Sverri Sigurðsson, Hallgerður hafði betur gegn Atla Antonssyni, Þórir Benediktsson vann Tinnu Kristínu og Jóhanna Björg sigraði liðsmann Vinjar, Hörð Garðarsson.  Viðureign Inga Tandra Traustasonar og Jóns Trausta Harðarsonar var frestað þar sem sá síðarnefndi var í sömu erindagjörðum og félagar hans, Dagur og Oliver.

 

C-flokkur er ekki síður spennandi og líkt og í B-flokki er hann skemmtileg blanda af ungu kynslóðinni og þeirra sem hafa heldur meiri lífsreynslu.  Það er sérstakt ánægjuefni að líkt og í B-flokki eru þrjár skákdrottningar meðal keppenda í C-flokknum en þær eru Hrund Hauksdóttir sem tapaði fyrir Sigurjóni Haraldssyni, Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir sem gerði jafntefli við Magnús Kristinsson og Elsa María Kristínardóttir sem vann hinn unga og efnilega TR-ing Gauta Pál Jónsson.  Viðureign Kristófers Ómarsssonar og Jóns Einars Karlssonar var frestað.

 

Opni flokkurinn telur að þessu sinni 21 keppanda og er Ragnar Árnason þeirra stigahæstur en næstur kemur hinn ungi og efnilegi TR-ingur Bárður Örn Birkisson sem hefur tekið miklum framförum að undanförnu.  Enn ein skákdrottningin, Sóley Lind Pálsdóttir, er þriðja í stigaröðinni og líkleg til að blanda sér í toppslaginn.  Líkt og venja er eru margir keppendur í opna flokknum að stíga sín fyrstu skref í kappskákmóti og ávallt er gaman að fylgjast með baráttunni þar.  Þremur viðureignum var frestað en úrslit urðu eftir bókinni ef frá er skilinn sigur Björns Hólms Birkissonar, tvíburabróður Bárðar Arnar, á Ragnari.

 

Önnur umferð fer fram á miðvikudagskvöld og hefst kl. 19.30 og þar fær Oliver meðal annars það verðuga verkefni að etja kappi við Stefán Kristjánsson og Jóhann H. Ragnarsson glímir við Jón Viktor.

  • Úrslit, staða og pörun
  • Bein útsending