Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga frá sjónarhóli TR



 

Taflfélag Reykjavíkur sendi sex lið til leiks á Íslandsmót skákfélaga 2019-2020 eins og undanfarin ár. A og B-liðin voru í fyrstu deild, C og D-liðin í þriðju deild og E og F-liðin í fjórðu deild. Að þessu sinni var því engin sveit TR í annarri deild. A-liðið stóð sig með ágætum, þótt að stundum hafi það kannski fengið aðeins of fáa vinninga gegn sterkustu sveitunum, en það góða er að liðið hefur aðeins “léttara plan” í vor og ætti að geta tryggt sér sæti í hinni nýju úrvalsdeild sem á að hefjast haustið 2021 ef fram heldur sem horfir. A-liðið var svipað skipað eins og undanfarin ár en helst breytingin er sú að Bragi Þorfinnsson tefldi að þessu sinni með gríðarsterkri sveit Selfoss en í staðin hefur Helgi Áss Grétarsson komið sér vel fyrir á öðru borði á eftir Guðmundi Kjartanssyni. Margeir Pétursson og úkraínski stórmeistarinn Oleksandr Sulypa styrktu liðið enn á ný og frá Danmörku komu þeir Hilmir Freyr Heimisson og Mikkel Mansori Jacobsen sem báðir eru Fide-meistarar. Hilmir stóð sig best, hlaut 3.5 vinning af fjórum og hækkaði um 16 ELO-stig. Ingvar Þór Jóhannesson, sem einnig er Fide-meistari tefldi athyglisverðar skákir og gerði þeim meðal annars skil á youtube rás sinni  hvar hann fór meðal annars yfir skák sína gegn Jóni L. Árnasyni. Aðrir sem tefldu fyrir A-liðið voru Daði Ómarsson, Omar Salama, Bárður Örn Birkisson og Aron Þór Mai. Aron tefldi eina skák fyrir A-liðið, sína fyrstu, en líklega ekki sína síðustu. Í hálfleik er A-lið TR í sjötta sæti en mun vonandi færast aðeins ofar á listanum eftir seinni hlutann á Selfossi. Ríkharður Sveinsson, formaður TR, var liðsstjóri A-liðsins. 

A-liðsmenn etja kappi við Fjölni

A-liðsmenn etja kappi við Fjölni

Fyrsta borðs maður TR, Guðmundur Kjartansson, stúderar eina af skákum helgarinnar

Fyrsta borðs maður TR, Guðmundur Kjartansson, stúderar eina af skákum helgarinnar

Róðurinn var ansi þungur fyrir B-liðið sem hafði í fyrsta sinn í vor haldið sínu sæti í fyrstu deild eftir að deildin varð 10 liða. Aukinheldur voru mótherjarnir mjög erfiðir í haust, meðal andstæðinga voru Víkingaklúbburinn og Skákfélag Selfoss og nágrennis, auk A-liðs TR. Sveitin var yfirleitt þannig skipuð að á efri borðum var aldamótakynslóð TR í allri sinni dýrð sem hefur verið undir handleiðislu Daða Ómarssonar síðastliðin ár. Þetta eru þeir Bárður Örn Birkisson, Aron Þór Mai, Björn Hólm Birkisson, Alexander Oliver Mai og sá sem heldur ekki á penna heldur situr við tölvu, Gauti Páll Jónsson. Guðni Stefán Pétursson tefldi fjórar skákir og Kjartan Maack tefldi þrjár. Fjórir skákmenn tefldu tvær skákir fyrir TR-B, þeir Omar Salama, Júlíus Friðjónsson, Sævar Bjarnason og Árni Ármann Árnason. Árni gerði sér lítið fyrir og vann báðar skákir sínar og hækkaði um 19 stig! Ríkharður Sveinsson, Björn Jónsson og Torfi Leósson tefldu svo eina skák hver. Það þýðir að hvorki fleiri né færri en fjórir fyrrum formenn TR og núverandi formaður tefldu með liðinu, þó ekki í sömu umferinni! B-sveitirnar tvær í fyrstu deild, TR-B og Víkingaklúbburinn-B sitja á botinum með 7.5 vinning í hálfleik. B-liðið mun því að öllum líkindum tefla í nýrri fyrstu deild næsta haust. Gauti Páll Jónsson sá um liðsstjórn B-liðsins. 

Öflug sveit TR-B

Öflug sveit TR-B

Eins og áður kom fram tefldi TR fram tveimur liðum í þriðju deild, TR-C og TR-D. Reyndar komst D-liðið á síðustu stundu upp í þriðju deild vegna forfalla annarra liða í keppninni. C-liðið stóð sig ágætlega og er í hálfleik í fjórða sæti. Það eru einmitt efstu fjögur liðin í þriðju deild sem fá sæti í hinni nýju annarri deild að ári, svo nú skiptir máli að liðið haldi sínu striki í vor. Fjórir skákmenn tefldu þrjár til fjórar skákir fyrir TR-C, þeir Eiríkur K. Björnsson, Jon Olav Fivelstad, Magnús Kristinsson og Agnar Darri Lárusson. Agnar vann allar skákir sínar þrjár og hækkaði um 19 stig. Einnig voru þónokkrir B- og D-liðsmenn sem litu við einu sinni í C-liðinu. D-sveitin er akkúrat í miðjunni, 7 sæti af 14 liðum, sem er ánægjulegur árangur miðað við að liðið átti upphaflega að vera í fjórðu deild. Tveir ungir skákmenn sem hafa ekki áður teflt með D-liðinu, Kristján Dagur Jónsson og Benedikt Þórisson, stóðu sig vel. Kristján Dagur græðir 27 stig og Benedikt um 19 stig. Þess má einnig geta að Þorsteinn Magnússon tefldi allar skákirnar fjórar. TR-D átti til að mynda sterkt 3-3 jafntefli gegn Vinaskákfélaginu hvar Hilmar Þorsteinsson vann mann 150 stigum hærri. Liðsstjóri bæði C- og D-liðsins var Eiríkur K. Björnsson. 

Frá viðureign C- og D liða TR

Frá viðureign C- og D liða TR

Í fjórðu deild sendi Taflfélagið tvö lið, TR-E og TR-F. F-liðið var skipað skákbörnum sem komin eru með reynslu af taflmennsku á kappskákmótum, En E-liðið var skipað krökkum sem voru aðeins lengra kominn auk fullorðinna skákmanna. Öðlingarnir Halldór Garðarsson og Guðmundur Aronsson tefldu báðir með bæði D- og E-liðinu og stóðu sig með prýði. Þeir Árni Ólafsson og Ingvar Wu Skarphéðinsson tefldu hvortveggi allar skákirnar og Ingvar hækkaði um heil 55 stig fyrir árangur sinn. Árni hækkaði um 18 stig, Leifur Þorsteinsson um 17 og Sigurður J. Sigurðsson um 15 stig. E-liðið er í 7. sæti af 16 liðum í fjórðu deild. Alls voru 12 skákkrakkar sem teflu með F-liði TR, þar af fimm sem ekki eru komin með skákstig, en það gæti þó breyst hvað á hverju. Iðunn Helgadóttir stóð sig best, hækkaði um 25 stig, vann tvær af þremur skákum. Jósef Ómarsson hlaut einnig tvo vinninga í þremur skákum. F-lið TR er í 9. sæti að fyrri hálfleik loknum, ágætis árangur. Svo verður liðið að sjálfsöfðu orðið miklu sterkara í seinni hlutanum, enda krakkarnir að taka miklum framförum. Liðsstjóri E og F-liðanna var Una Strand Viðarsdóttir. 

E-liðið var skipað skákmönnum á öllum aldri

E-liðið var skipað skákmönnum á öllum aldritre2

 

F-lið Taflfélags Reykjavíkur

F-lið Taflfélags Reykjavíkur

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum sem lögðu hönd á plóg fyrir til að gera það mögulegt að senda sex lið til leiks í þessa stóru og miklu skákhátíð. Það verður virkilega skemmtilegt að fara á nýjar slóðir og klára mótið á Hótel Selfossi næsta vor. Hallfríði Sigurðardóttur og Unu Strand Viðarsdóttur er þakkað fyrir góðar myndir sem prýða fréttina. Að lokum má nefna að á meðan mótinu stóð voru nýir titilhafar hylltir, þar af þrír úr röðum TR! Þórir Benediktsson fékk alþjóðleg dómararéttindi, Bárður Örn Birkisson hlaut CM titilinn og Hilmir Freyr Heimisson hlaut FM titil. Til hamingju allir!