Formaður T.R þakkar félagsmönnum fyrir skákhelgina



Kæru T.R.ingar.

 

Nú um helgina fór fram fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga. Vil ég hér með þakka ykkur innilega fyrir að gefa tíma ykkar til að tefla fyrir hönd félagsins! Við tefldum fram 6 liðum: A-lið í 1. deild, B-lið í 2. deild, C-lið í 3. deild og D, E og F-lið í 4. deild. Í stuttu máli sagt sagt stóðuð þið ykkur frábærlega vel! Þrjú fyrstu liðin eru í toppbaráttu í sínum deildum! Ljóst er að seinni hlutinn verður óheyrilega spennandi og ekkert er útilokað!

 

Þrjú liðin í 4. deild sýna þverskurð okkar sem félag. Þar erum við með breiðan hóp áhugaskákmanna svo og efnilegra unglinga. Aldursbreiddin er mikil. Til að mynda tefldu þeir hlið við hlið í D-liðinu þeir Friðrik Þjálfi Stefánsson 13 ára og Bjarni Magnússon 88 ára! Einnig vil ég geta þess að meðal þeirra T.R.inga sem tefldu fyrir félagið um helgina voru 7 af stjórnarmönnum félagsins. Enn einn stjórnarmaður, Ólafur S. Ásgímsson, annaðist skákstjórn á mótinu.

 

Taflfélag Reykjavíkur hefur mætt mótlæti með ýmsum hætti á þessu ári. En félagið er sterkt. Það hefur lifað af tímanna tvenna og hristir þetta af sér. Félagið verður 109 ára núna 6. október! Mótlæti getur hert okkur og mér fannst ég skynja góðan liðsanda í T.R.-liðunum núna um helgina og það var sterk tilfinning um við stæðum öll saman. Það var ótrúlega gaman að sjá taflmennskuna á mörgum borðum, þar sem maður sá að skákmenn félagsins voru að gefa allt sitt í skákirnar!

 

Áfram svona!

 

Að lokum vil hvetja alla félagsmenn að senda okkur í stjórninni línu ef þið viljið koma ábendingum á framfæri, eða hafið hugmyndir um hvernig við getum starfað betur í félaginu og gert veg þess meiri. 

 

Ég þakka einnig Kristjáni Erni Elíassyni og Eiríki K. Björnssyni fyrir allan undirbúning og liðsstjórn á mótinu.

 

Bestu kveðjur,

 

Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir

Formaður T.R.