Ekki mikið um óvænt úrslit í annarri umferð KORNAX mótsinsÖnnur umferð KORNAX mótsins 2010 – Skákþings Reykjavíkur fór fram í kvöld.  Viðureignir voru heldur jafnari en í fyrstu umferð eins og tíðkast gjarnan á mótum í dag þar sem teflt er eftir svissneska kerfinu.

 

Svissneska kerfið virkar þannig að fyrir fyrstu umferð er keppendum skipt upp í tvo styrkleikaflokka.  Keppendum er raðað eftir elo stigum og svo er listanum skipt við miðju.  Þannig mætast í fyrstu umferð stigahæsti keppandi í efri styrkleikaflokki og stighæsti keppandinn í neðri styrkleikaflokki, síðan næststigahæstu keppendurnir og svo koll af kolli.  Þessi skipting er síðan endurtekin fyrir hverja umferð, þ.e. keppendum með jafnmarga vinninga er skipt niður eftir fyrrgreindu kerfi.  Þetta verður til þess að viðureignir fyrstu umferðar verða oft mjög ójafnar en sá munur minnkar jafnt og þétt og í þriðju og fjórðu umferð er styrkleiki keppenda strax orðinn áþekkari.

 

Kostirnir við þetta kerfi eru að það kemur í veg fyrir að sterkustu keppendurnir mætist snemma móts en þess í stað etja þeir kappi síðar í mótinu þegar spennan er orðin meiri og þannig fást fleiri “úrslitaskákir”.  Einnig hefur kerfið þann skemmtilega eiginleika að bjóða upp á mörg óvænt úrslit og mörg stig geta verið í pottinum í hverri viðureign.  Dæmi um þetta sáust berlega í úrslitum fyrstu umferðar.

 

En þá að viðureignum kvöldsins.  Lítið var um óvænt úrslit á efstu borðum en þó gerðu Hörður Garðarsson (1888) og Magnús P. Örnólfsson (2185) jafntefli sem og alþjóðlegi meistarinn, Sævar Bjarnason (2164), og Tinna Kristín Finnbogadóttir (1805).  Þá má nefna jafntefli Atla Antonssonar (1716) og Ólivers Jóhannessonar (1280).

Einni skák var frestað og því liggur pörun þriðju umferðar ekki fyrir fyrr en á fimmtudagskvöld.

Nánari upplýsingar á heimasíðu mótsins.