Davíð sigurvegari Haustmótsins – Þorvarður félagsmeistariHaustmót Taflfélags Reykjavíkur fagnaði áttræðis-afmælinu þegar flautað var til leiks þann 14. september síðastliðinn en mótið fór fyrst fram árið 1934 þegar Steingrímur Guðmundsson vann fyrsta meistartitil félagsins.  Nú, áttatíu árum síðar, börðust tæplega 60 keppendur við skákborðin í Skákhöll félagsins í Faxafeninu.  Keppt var í þremur lokuðum flokkum auk opins flokks.

 

A-flokkur var þétt skipaður ungum og aðeins eldri skákmönnum.  Stigahæstur var Fide-meistarinn Davíð Kjartansson (2331) en næstur kom kollegi hans, Þorsteinn Þorsteinsson (2242) og þá hinn nýi liðsmaður TR, Þorvarður F. Ólafsson (2213).  Fallbyssurnar, alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason (2095), og Gylfi Þórhallsson (2121) hafa teflt flestar skákir Íslendinga og létu sig ekki vanta.  Skytturnar þrjár úr Fjölni, þeir Oliver Aron Jóhannesson (2165), Dagur Ragnarsson (2154) og Jón Trausti Harðarson (2092) eru fyrir löngu búnir að sanna sig á meðal þeirra bestu og nú yrði látið sverfa til stáls.  Þá voru „pósavélarnar“ Jón Árni Halldórsson (2170) og fráfarandi skákmeistari TR, Kjartan Maack (2131) mættir til leiks.

 

Klárt var að allra augu beindust að Davíð og hvort einhver myndi standast honum snúning en baráttan um meistaratign félagsins myndi standa á milli Sævars, Þorvarðs og Kjartans.  Fljótlega kom í ljós að Davíð ætlaði sér að sigla sigrinum örugglega í höfn og eftir að hafa fengið 3,5 vinning úr fyrstu fjórum umferðunum var hann kominn hálfa leið heim.  Tveir sigrar og þrjú jafntefli í síðustu fimm umferðunum tryggðu svo sigurinn og hlaut Davíð því 7 vinninga, vinningi meira en Þorsteinn og Þorvarður sem komu næstir.  Þorvarður er því Skákmeistari TR 2014 en hann átti mjög gott mót og tapaði aðeins gegn Davíð.

 

Oliver Aron kom næstur með 5 vinninga og sýndi enn einu sinni flotta frammistöðu þar sem hann tapaði aðeins einni skák.  Oliver hækkar um 23 Elo-stig fyrir þessa frammistöðu og nálgast nú 2200 stiga múrinn eins og óð fluga, hvernig svo sem óðar flugur haga sér.  Sævar kom í humátt með 4,5 vinning og þá Dagur, Jón Trausti og Gylfi með 3,5 vinning en restina ráku að þessu sinni Kjartan og Jón Árni og því spurning hvort pósinn sé eitthvað að láta undan?

 

Taflfélag Reykjavíkur óskar Davíð til hamingju með verðskuldaðan sigur og Þorvarði með sinn fyrsta meistaratitil félagsins.

 

B-flokkurinn var sérlega skemmtilega skipaður og að þessu sinni voru tveir erlendir skákmenn stigahæstir; Spánverjinn Damia Benet Morant og Þjóðverjinn Christopher Vogel.  Baráttan í flokknum var mjög spennandi en hann samanstóð af reyndari ásamt ungum og efnilegum skákmönnum sem eru á hraðri uppleið þessa dagana.

 

Lengi vel leiddi hinn ungi TR-ingur Björn Hólm Birkisson flokkinn en hann hefur verið á ævintýralegri siglingu að undanförnu en hann tapaði ekki skák í mótinu.  Að lokum gaf hann þó eilítið eftir og það nýtti Damia sér og skaust framúr á lokasprettinum.  Svo fór að Spánverjinn kom í mark með 7 vinninga en Björn og Christopher komu næstir með 6,5 vinning.  Þess má geta að Björn hækkar um hvorki meira né minna en 133 Elo-stig og árangur hans samsvarar 1990 stigum.  Það er ævintýralegt hjá þessum unga og flotta skákmanni.

 

Stigahæstur í C-flokki var tvíburabróðir Björns Hólms, Bárður Örn, sem hefur ekki verið á síðri hraðferð upp stigalistann að undanförnu.  Næstir komu Vinjarmennirnir Haukur Halldórsson og Hörður Jónasson.  Þegar níunda og síðasta umferðin hafði verið tefld stóð Bárður uppi sem sigurvegari með 8 vinninga en hann leiddi flokkin frá byrjun.  Annar ungur og efnilegur piltur, Felix Steinþórsson, kom næstur með 7 vinninga en Jóhann Arnar Finnsson varð þriðji með 5,5 vinning.

 

Opni flokkurinn var venju samkvæmt góð blanda af reyndari skákmönnum ásamt byrjendum sem jafnvel eru að stíga sín fyrstu skref á skákmóti.  Styrkleikamunurinn vill því gjarnan verða nokkuð mikill og svo fór að Ólafur Evert Úlfsson sigraði með yfirburðum og hlaut fullt hús vinninga.  Næstur með 7 vinninga kom Arnþór Hreinsson en Aron Þór Mai og Alex Cambray Orrason fylgu með 6,5 vinning.

 

Taflfélag Reykjavíkur þakkar keppendum fyrir skemmtilegt og spennandi mót.  Jafnframt er ekki úr vegi að nefna mikilvægi þess að skákmenn sinni þeim skákmótum vel sem þeir skrá sig í.  Fjarvistir í Haustmótinu voru alltof margar og voru hátt í þrjátíu skákir ótefldar vegna þeirra.  Gott er að hafa í huga að í hvert sinn sem ekki er mætt til leiks er einhver annar sem fer fýluferð og missir af viðureign sem er innifalin í þátttökugjaldinu.  Þá er ljóst að keppendur í lokuðum flokkum verða að hafa í huga að með því að taka sæti í þeim missir einhver annar af sæti í sama flokki.  Því er afar mikilvægt að keppendur hætti ekki í miðju móti nema fyrir því liggi sterk rök.  Þá er gott að láta skákstjóra vita með fyrirvara ef forföll eru fyrirsjáanleg.

  • Heildarúrslit
  • Myndir
  • Skákir