Áskorendaflokkur hófst í dag



 

Taflmennska í áskorendaflokki Skákþings Íslands hófst í dag þegar fyrsta umferð var tefld í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni.  Upphaflega stóð til að mótið færi fram í félagsheimili Hellis en vegna mjög góðrar þátttöku var ákveðið að færa mótið í T.R.

 

45 keppendur eru skráðir til leiks, þeirra stigahæstur, Hjörvar Steinn Grétarsson (2320), sem hlýtur að teljast sigurstranglegur.  Meðal annarra keppenda má nefna Fide meistarann, Þorstein Þorsteinsson (2286), og alþjóðlega meistarann, Sævar Bjarnason (2171).

 

Óvæntustu úrslit fyrstu umferðar eru án efa sigur hins unga og efnilega Dags Kjartanssonar (1455) á hinum margreynda norðlendingi, Stefáni Bergssyni (2070).  Auk þess gerði annar ungur og efnilegur skákmaður, Mikael Jóhann Karlsson (1702), jafntefli við næststigahæsta keppanda mótsins, Fide meistarann ofangreinda, Þorstein Þorsteinsson (2286).  Einnig gerði hinn stigalausi, Óliver Aron Jóhannesson jafntefli við Akurnesinginn, Hörð Garðarsson (1884), en Hörður á það til að gera mörg jafntefli í mótum.  Önnur úrslit voru öll eftir bókinni, þ.e. sá stigahærri sigraði þann stigalægri.

 

Önnur umferð fer fram í kvöld og hefst kl. 19.  Áhorfendur eru hvattir til að mæta en heitt er á könnunni ásamt veitingum.

 

Tíu félagsmenn T.R. taka þátt í mótinu og verður sérstaklega spennandi að fylgjast með gengi þeirra:

 

  • Eiríkur K. Björnsson (2034) 1v
  • Kristján Örn Elíasson (1982) 1v
  • Frímann Benediktsson (1950) 1v
  • Þorsteinn Leifsson (1814) 1v
  • Agnar Darri Lárusson (1752) 1v
  • Atli Antonsson (1720) 1v
  • Friðrik Þjálfi Stefánsson (1694) 0v
  • Páll Andrason (1550) 0v
  • Birkir Karl Sigurðsson (1370) 0v
  • Hjálmar Sigurvaldason (1350) 0v

 

  • Heimasíða SÍ
  • Chess-Results