ANATOLY KARPOV TIL ÍSLANDS



Taflfélag Reykjavíkur, CCP og MP Banki standa að komu stórmeistarans Anatoly Karpov til ÍslandsAnatoly Karpov frá Rússlandi, fyrrverandi heimsmeistari í skák og einn besti skákmaður sögunnar, kemur til Íslands í byrjun október í tilefni af 111 ára afmæli Taflfélags Reykjavíkur. CCP, framleiðandi tölvuleiksins EVE Online, og MP Banki standa að heimsókninni ásamt Taflfélaginu, en fyrirtækin hafa áður starfað saman að stórviðburði í skákheiminum þegar Stórmeistaramót MP og CCP var haldið í tilefni 110 ára afmælis TR. Leikjahönnuðir CCP hafa jafnan litið á skákina sem hinn fullkomna leik, og líkt EVE Online krefst skákin bæði rökhugsunar og hernaðarkænsku. Lengi hefur verið unnið að því að fá stórmeistarann til landsins, en eins og komið hefur fram í fjölmiðlum er Karpov á meðal þeirra þekktu stórmeistara sem nýverið gengu í raðir Taflfélags Reykjavíkur í tengslum við Íslandsmót skákfélaga. Fyrri hluti mótsins fer fram um aðra helgi í Reykjavík. Koma meistarans er mikil lyftistöng fyrir skákíþróttina á Íslandi og verður mikið um dýrðir vegna komu hans. Meðan á dvöl hans stendur mun Karpov meðal annars heimsækja grunnskóla og tefla þar við ungar og upprennandi skákstjörnur auk þess að mæta á skákæfingu hjá Taflfélagi Reykjavíkur , tefla fjöltefli í Ráðhúsi Reykjavíkur og heimsækja gröf Bobby Fischers. Skákin á vaxandi vinsældum að fagna meðal ungmenna og án efa mun koma meistarans hvetja ungt skákfólk til dáða og kveikja áhuga margra á skáklistinni.Anatoly Karpov varð heimsmeistari 1975, einungis 24 ára gamall, þegar Bobby Fischer neitaði að verja titilinn sem hann vann í Reykjavík þremur árum áður. Í næstum áratug bar Karpov ægishjálm yfir aðra skákmenn, eða allt þar til Garry Kasparov kom fram á sjónarsviðið. Frá 1984 til 1990 háðu þessir miklu meistarar 5 einvígi um heimsmeistaratitilinn, sem telja má meðal frægustu heimsmeistaraeinvígja sögunnar. Karpov tefldi áfram í fremstu röð, þrátt fyrir að hafa tapað titlinum til Kasparovs, og sigraði meðal annars á ofurskákmótinu í Linares 1994 með 11 af 13 vinningum mögulegum. Það afrek er enn í dag besta frammistaða nokkurs skákmanns á einstöku móti í allri skáksögunni.Árið 1993 varð Karpov aftur heimsmeistari, eftir að Kasparov yfirgaf FIDE, alþjóðasamtök skákmanna og hélt titlinum til 1999.Karpov hefur á undanförnum árum, beint kröftum sínum í síauknum mæli að góðgerðarmálefnum og er í dag sérlegur sendiherra UNICEF í Mið- og Austur Evrópu.Virðingafyllst,Björn JónssonTaflfélag Reykjavíkur