114. starfsári Taflfélags Reykjavíkur lokiðSenn lýkur enn einu gjöfulu skákári hjá Taflfélagi Reykjavíkur en aðalfundur félagsins verður haldinn í byrjun júní.  Nýr formaður félagsins, Björn Jónsson, tók við góðu búi af forvera sínum, Sigurlaugu Regínu Friðþjófsdóttur, sem leiddi félagið árin 2009-2013, jafnlengi og Óttar Felix Hauksson, forveri hennar.

Starfsárið einkenndist af áframhaldandi uppgangi barna- og unglingastarfsins, flóru nýrra skákmóta og góðu samstarfi stjórnarmanna félagsins ásamt öflugum bakhjörlum og velunnurum þess.  Taflfélag Reykjavíkur leggur áherslu á metnaðarfullt og faglegt starf, félagið vill koma fram af heilindum og fara eftir settum lögum og reglum.  Með starfi félagsins vonast forsvarsmenn þess að eftirspurn skákáhugamanna, allt frá byrjendum til meistara, sé svarað og að Taflfélag Reykjavíkur sé eftirsótt og aðlaðandi skákfélag.

Margir af félagsmönnum þessa stærsta skákfélags landsins segja gjarnan að Taflfélag Reykjavíkur sé best og að þeir vilji hvergi annarsstaðar vera.  Þetta er auðvitað sagt með keppnisandann að leiðarljósi því það eru mörg góð skákfélög sem veita því stærsta verðuga og drengilega samkeppni.  Það er þó sannleikskorn í þessu – við í Taflfélagi Reykjavíkur viljum svo sannarlega að starf félagsins sé öflugt fyrir alla.  Við viljum að skákmönnum finnist þeir vera heima í félaginu.

Samkeppni er mikilvæg en samvinna er mikilvægari.  Með öflugu samstarfi félaganna og skákforystu landsins er hægt að gera enn meira – höfum það að leiðarljósi.

Taflfélag Reykjavíkur hélt á þriðja tug skákmóta á líðandi starfsári og með örlítilli samantekt á síðari hluta þess vilja forystumenn þess þakka sérstaklega öllum skákkörlum, skákkonum, skákstelpum, skákstrákum sem og foreldrum og forráðamönnum þeirra fyrir samstarfið og stuðninginn í gegnum árin því án þeirra væri lítið líf í Skákhöll félagsins að Faxafeni.  Hlökkum til áframhaldandi samstarfs á 115. starfsárinu!

Samantekt um fyrri hluta starfsársins hefur þegar birst og er að finna hér.

Skákþing Reykjavíkur var haldið í 83. sinn með metþátttöku hin síðari ár en tæplega áttatíu keppendur voru skráðir til leiks.  Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og Fide meistarinn Einar Hjalti Jensson komu jafnir í mark en eftir stigaútreikning var Jón Viktor útnefndur Skákmeistari Reykjavíkur í fimmta sinn.  Hinn ungi og efnilegi Oliver Aron Jóhannesson stóð sig vel og hafnaði í þriðja sæti.

Hraðskákmót Reykjavíkur fór fram í kjölfar Skákþingsins.  Fide meistarinn og Bolvíkingurinn Guðmundur Gíslason sigraði en kollegi hans, Róbert Lagerman, varð annar og hlaut titilinn Hraðskákmeistari Reykjavíkur þar sem Guðmundur er hvorki búsettur í Reykjavík né meðlimur í reykvísku skákfélagi.

Reykjavíkurmót grunnskólasveita fór fram í febrúar með þátttöku tæplega 30 liða.  Sveit Rimaskóla sigraði nokkuð örugglega en skólinn hefur verið í forystu í skólaskákinni um áraraðir.  Rimaskóli sigraði einnig í stúlknaflokki.

Skákkeppni vinnustaða fór fram með þátttöku sjö liða.  Lið Actavis hafði sigur eftir harða baráttu við lið Skákakademíunnar.  Stefnt er að áframhaldandi uppbyggingu þessa nýja og skemmtilega móts.

Barna- og unglingameistaramót Reykjavíkur var vel skipað á fjórða tug keppenda.  Vignir Vatnar Stefánsson varði titil sinn síðan í fyrra og Veronika Steinunn Magnúsdóttir varð Stúlknameistari Reykjavíkur í þriðja sinn.

Skemmtikvöld TR eru ný af nálinni og var hið fyrsta haldið í lok mars með Íslandsmótinu í Fischer Random.  Alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson sigraði með fádæma yfirburðum.  Kollegar hans, Jón Viktor Gunnarsson og Björn Þorfinnsson komu næstir.  Mánuði síðar fylgdi næsta Skemmtikvöld þar sem aftur var keppt í Fischer Random en nú með fyrirkomulaginu heili og hönd.  Þrjú pör voru jöfn í efsta sæti; Jón Viktor og Ólafur Kjartansson, Þorvarður F. Ólafsson og Fide meistarinn Ingvar Þór Jóhannesson ásamt Bergsteini Einarssyni og Sigurði Páli Steindórssyni.

Nói Síríus Páskaeggjasyrpan samanstóð af þremur glæsilegum mótum sunnudagana fyrir páska.  Þátttökurétt höfðu allir krakkar á grunnskólaaldri og voru keppendur á áttunda tuginn í hverju móti.  Á annaðhundrað börn tók þátt í mótunum þremur þar sem Óskar Víkingur Davíðsson stóð sig best samanlagt í yngri flokki en Vignir Vatnar Stefánsson í þeim eldri.

Skákmót öðlinga hefur verið haldið í á þriðja áratug og er sívinsælt.  Alþjóðlegi meistarinn Sævar Bjarnason er nýr Öðlingameistari en hann kom jafn Ögmundi Kristinssyni í mark.  Sævar hefur teflt flestar skákir Íslendinga og lætur sig sjaldan vanta á skákmót.  Það er því sérlega ánægjulegt að hann hafi nælt sér í þennnan eftirsótta titil.

Hraðskákmót öðlinga fór fram að loknu Öðlingamótinu og þar sigraði Gunnar Björnsson örugglega með fullt hús vinninga.

WOW air mótið var hið fyrsta af nýju Vormóti sem TR hefur sett á laggirnar.  Stefnt er að því að mótið verði árlegur viðburður en 2000 Elo-stiga lágmark var í mótið.  Ungum og efnilegum skákmönnum var boðið nokkur laus sæti.  Mótið var sérlega vel skipað og var stórmeistarinn Friðrik Ólafsson meðal keppenda ásamt tólf-földum Íslandsmeistara, Hannesi Hlífari Stefánssyni.  Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson hafði mikla yfirburði og sigraði með eins og hálfs vinnings mun.  Hannes Hlífar kom næstur.  Í B-flokki sigraði Magnús Pálmi Örnólfsson og ungu ljónin, Gauti Páll Jónsson og Vignir Vatnar Stefánsson, voru í hópi þeirra sem komu næstir.

Íslandsmót skákfélaga var fjölmennt sem aldrei fyrr.  Taflfélag Reykjavíkur sendi fimm sveitir til leiks, þar af tvær barna- og unglingasveitir.  A-sveit félagsins sigldi lygnan sjó í fyrstu deildinni og aðrar sveitir voru í efri hluta sinna deilda.

Laugardagsæfingarnar eru í mikilli sókn og fjöldi barna sem sækir æfingarnar hjá félaginu er mikill.  Sigurlaug Regína Friðþjófsdóttir hefur sinnt æfingunum af mikilli alúð um árabil og fékk nú öflugan liðsstyrk með nýjum formanni, Birni Jónssyni, sem kynnti til sögunnar nýtt og glæsilegt námsefni sem er án endurgjalds eins og annað er viðkemur laugardagsæfingunum.  Það er félaginu mikið ánægjuefni hversu mikið stúlknaæfingunum hefur vaxið fiskur um hrygg en Sigurlaug hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á þær.

Vignir Vatnar Stefánsson varð Íslandsmeistari barna annað árið í röð og hlaut silfuverðlaun á Norðulandamótinu í skólaskák en hann er fyrrverandi Norðurlandameistari.

Krakkarnir í TR stóðu sig feykivel og hækka mörg hver mikið á stigum.  Taflfélag Reykjavíkur mun sannarlega halda áfram að styðja við bakið á þeim og fylgjast stolt með árangri þeirra við skákborðið.