WOW air mótinu lokið



Hinu nýja Vormóti Taflfélags Reykjavíkur lauk síðastliðið mánudagskvöld þegar sjöunda og síðasta umferðin var tefld við hinar bestu aðstæður í húsnæði Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12.  Mótið var sérlega glæsilegt og vel skipað en það var haldið í samstarfi við WOW air sem er einn af öflugustu bakhjörlum félagsins.

Hugmyndina að Vormótinu átti formaður TR, Björn Jónsson, en því er ætlað að svara kalli skákmanna eftir sterkari mótum þar sem uppfylla þarf stigalágmörk til að eiga keppnisrétt.  Þá var haft að leiðarljósi að hafa fyrirkomulag umferða sem þægilegast og því var aðeins teflt einu sinni í viku en mikið hefur verið rætt um það hvaða „hraði“ á mótum henti best.

Mótinu var skipt í tvo flokka.  Í A-flokki voru skákmenn með 2200 Elo stig og meira og í B-flokki voru skákmenn með 2000 Elo stig og meira.  Að auki var nokkrum skákmönnum sem ekki uppfylltu stigalágmörkin boðin þátttaka og var þar helst horft til ungra og efnilegra skákmanna sem þarna myndu fá gott tækifæri og öðlast dýrmæta reynslu.  Fjölmargir verðugir keppendur sóttu um boðssætin og valið var ekki auðvelt.

Keppendalisti A-flokks var sannarlega vígalegur.  Fyrstan ber að nefna fyrsta stórmeistara Íslendinga, Friðrik Ólafsson, sem verður áttræður á næsta ári.  Forvígismenn Taflfélags Reykjavíkur eru sannarlega stoltir af því að hafa meistara Friðrik um borð og kunna honum bestu þakkir fyrir þátttöku sína í mótinu.  Stigahæstur keppenda var margfaldur Íslandsmeistari, Hannes Hlífar Stefánsson, en næstur í stigaröðinni kom nýjasti stórmeistari Íslendinga, Hjörvar Steinn Grétarsson.

Alls tóku þátt í mótinu fimm stórmeistarar, tveir alþjóðlegir meistarar, fjórir Fide meistarar og einn stórmeistari kvenna.  Auk þeirra mátti finna Íslandsmeistara barna, Unglingameistara Reykjavíkur og Taflfélags Reykjavíkur sem og fyrrverandi Norðurlandameistara barna, Vigni Vatnar Stefánsson.  Sömuleiðis var Stúlknameistari Reykjavíkur og Taflfélags Reykjavíkur, Veronika Steinunn Magnúsdóttir, þátttakandi í B-flokknum.

Fyrirfram var ljóst að baráttan myndi standa á milli Hjörvars Steins og Hannesar Hlífars.  Eftir óvænt jafntefli Hannesar við Fide meistarann Ingvar Þór Jóhannesson í annarri umferð og síðan tap gegn Hjörvari í þeirri fjórðu leit út fyrir að fátt gæti komið í veg fyrir sigur Hjörvars Steins.  Það varð enda raunin því Hjörvar hafði fullt hús vinninga fyrir lokaumferðina og hafði þegar tryggt sér sigurinn þar sem hann var tveimur vinningum á undan næstu mönnum.

Í lokaumferðinni gerði Hjörvar jafntefli við stórmeistarann Þröst Þórhallsson og lauk keppni með 6,5 vinning og hækkun upp á 15 Elo stig.  Hannes kom næstur með 5 vinninga en hann vann hinn unga og efnilega Dag Ragnarsson.  Þröstur og alþjóðlegi meistarinn Guðmundur Kjartansson fylgdu á eftir með 4,5 vinning.  Árangur Dags, sem var næststigalægstur í flokknum, var eftirtektarverður en hann hlaut 4 vinninga og vann m.a. Guðmund.

Í B-flokki sigraði Magnús Pálmi Örnólfsson eftir að hafa verið á toppnum allt mótið.  Magnús tapaði ekki skák og hlaut 5,5 vinning.  Fjórir skákmenn komu næstir með 4,5 vinning og koma þeir allir úr Taflfélagi Reykjavíkur; Kjartan Maack skákmeistari TR, Hrafn Loftsson, Vignir Vatnar Stefánsson og Gauti Páll Jónsson.  Árangur Vignis Vatnars og Gauta Páls er glæsilegur og skutu þeir mörgum stigahærri keppendum ref fyrir rass.  Báðir hækka þeir um u.þ.b. 40 Elo stig og þá tapaði Vignir Vatnar ekki skák.  Með sigrinum ávann Magnús Pálmi sér þátttökurétt í A-flokki að ári.

Glæsileg verðlaunaafhending fór fram á þriðjusdagskvöld þar sem Friðrik hafði m.a. á orði að hann hafi einmitt verið ellefu ára, líkt og Vignir Vatnar er nú, þegar hann tók þátt í sínu fyrsta skákmóti árið 1946.  Vignir Vatnar hafði síðan lukkuna með sér ásamt Hjörvari Steini þegar þeir unnu veglegar skákklukkur í happdrætti sem fór fram meðfram verðlaunaafhendingunni.

Skákstjórar voru Ríkharður Sveinsson og Ingibjörg Edda Birgisdóttir.  Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum sem þátt tóku í mótinu og vonast til að þetta nýja og glæsilega mót verði árlegur viðburður héreftir.

  • Úrslit, staða og pörun: A flokkur B flokkur
  • Skákir: 1 2 3 4 5 6 7
  • Myndir
  • Wow air mótið