Vignir Vatnar Stefánsson er Unglingameistari T.R. 2012 og Donika Kolica er Stúlknameistari T.R. 2012.
Barna- og unglingameistaramót sem og Stúlknameistaramót Taflfélags Reykjavíkur fór fram sunnudaginn 16. september, í félagsheimili T.R. Faxafeni 12. Keppt var í einum flokki og voru 7 umferðir tefldar eftir Monradkerfi, en umhugsunartíminn var 15 mínútur á skák.
Skákmótið var opið fyrir keppendur 15 ára og yngri og tóku 22 krakkar þátt. Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, en auk þess fyrir þrjár efstu stúlkurnar. Félagsmenn í TR kepptu einnig um titilinn Unglingameistari T.R. 2012 og Stúlknameistari T.R 2012. Að auki voru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í flokki 12 ára og yngri.
Skákmótið var frekar snemma á ferðinni þetta árið. Síðustu ár hefur mótið verið haldið í nóvember, en sakir fjölda annarra skákmóta í þeim mánuði var ákveðið að flytja það fram í miðjan september. Næstum allir krakkarnir sem tóku þátt í mótinu höfðu einnig tekið þátt í stóra afmælismótinu í Laugardalshöllinni deginum áður, sem haldið var í tilefni af 40 ára afmæli Einvígis aldarinnar milli Fischers og Spassky og var þetta því mikil skákhelgi!
Skákmótið var spennandi og skemmtilegt! Eftir fjórðu umferð bauð T.R. keppendum upp á pizzu og gos og gafst þá krökkunum tækifæri á að spjalla saman á léttum nótum!
Sigurvegari mótsins og jafnframt Unglingameistari T.R. 2012 varð hinn 9 ára gamli Vignir Vatnar Stefánsson, sem einnig fékk 1. verðlaun í flokki 12 ára og yngri!
Efst í flokki stúlkna og þar með einnig Stúlknameistari T.R. 2012 varð Donika Kolica, sem er 15 ára gömul. Donika hefur verið virk í skákinni undanfarin misseri og er hún að taka stökk fram á við með árangri sínum í þessu skákmóti.
Úrslit skákmótsins urðu annars sem hér segir:
Efst í opnum flokki:
1. Vignir Vatnar Stefánsson, 6,5 vinn.
2. Hilmir Freyr Heimisson 6 vinn.
3. Gauti Páll Jónsson 5 vinn.
Efst í stúlknaflokki:
1. Donika Kolica 4,5 vinn.
2. Svandís Rós Ríkharðsdóttir 4 vinn.
3. Veronika Steinunn Magnúsdóttir 3,5 vinn.
Efst í yngri flokki:
1. Vignir Vatnar Stefánsson 6,5 vinn.
2. Hilmir Freyr Heimisson 6 vinn.
3. Guðmundur Agnar Bragason 4,5 vinn.
Skákstjórn var í höndum Torfa Leóssonar og Sigurlaugar R. Friðþjófsdóttur sem einni tók myndir.
- Heildarúrslit
- Myndir