Vignir Vatnar sigraði á Jólahraðskákmóti TR!



Það var rífandi stemming í Skákhöllinni þegar 35 stríðalin jólabörn mættu til leiks á Jólahraðskákmót Taflfélags Reykjavíkur í gærkvöldi. Tefldar voru 2×7 umferðir með 5 mínútur á klukkunni.

20151229_220609

Sigurvegari síðasta árs Oliver Aron Jóhannesson var mættur til að verja titilinn en einnig margar aðrar þekktar klukkubarningsvélar eins og Ólafur B. Þórsson, Gunnar F. Rúnarsson og Billiardsbars-bræðurnir Jóhann Ingvason og Kristján Örn Elíasson.

vvs  2015-12-29 22.05.58Yngsta kynslóðin lét sig heldur ekki vanta enda ávallt í góðu formi fyrir hraðskákirnar.  Þannig var Adam Omarsson mættur ásamt móður sinni Lenku og Freyja Birkisdóttir ásamt bræðrum sínum Birni og Bárði.  Það var einnig Vignir Vatnar nokkur Stefánsson sem sýndi strax að frábær árangur hans á Atskákmóti Icelandair var enginn tilviljun og byrjaði strax að véla andstæðinga sína niður eftir öllum kúnstarinnar reglum.

Eftir átta umferðir var Vignir einn efstur með 7 1/2 vinning og hafði þá m.a. lagt að velli Örn Leo Jóhannsson 2-0 og FM Grafarvogsvélina Dag Ragnarsson 1 1/2 -1/2.  Fast á hæla honum vinning á eftir var Ólafur B. Þórsson og þeir tveir mættust í næstu viðureign.  Þar hafði Óli sigur 2-0 í hörkuskákum.  Vignir lét það þó ekki hafa áhrif á sig og sigraði síðustu fjórar skákir sínar í mótinu og kom í mark með 11 1/2 vinning. Ólafur B. þurfti 1 vinning úr lokaskákunum tveimur en fékk það erfiða hlutskipti að þurfa að sækja hann gegn sigurvegara síðasta árs Oliver Aron.  Það tókst ekki því Oliver sigraði viðureignina 1 1/2 – 1/2 eftir mikinn klukkubarning og því varð Óli að gera sér annað sætið að góðu með 11 vinninga.  Oliver varð svo þriðji með 10 1/2 vinning.

 

20151229_222749

Taflfélag Reykjavíkur þakkar öllum þeim sem lögðu leið sína í Fenið í gærkvöldi og tóku þátt.  Skákþing Reykjavíkur sem haldið hefur verið samfleytt í 85 ár og er elsta mót landsins hefst svo á sunnudaginn.  Við vonumst til að sjá sem flesta á því stórskemmtilega móti.  Gleðilega hátíð!

Úrslit og lokastaðan í Jólahraðskákmóti TR 2015 hér