Um síðastliðna helgi fór fram á Akureyri Íslandsmót yngri flokka í skák þar sem keppt var í tveimur flokkum. Í flokki unglinga 20 ára og yngri voru átta keppendur en í yngri flokki 15 ára og yngri, þar sem var keppt keppt um Íslandsmeistaratitla 15 ára og yngri sem og 13 ára og yngri, voru 29 keppendur skráðir til leiks.
Að venju voru nokkrir af glæsilegum fulltrúum Taflfélags Reykjavíkur meðal þátttakenda og var árangur þeirra svo sannarlega glæsilegur. Einn efnilegasti skákmaður þjóðarinnar um þessar mundir, Vignir Vatnar Stefánsson, hlaut 7,5 vinning í umferðunum níu og tryggði sér þannig Íslandsmeistaratitil 13 ára og yngri. Vignir var aðeins hársbreidd frá því að tryggja sér einnig titilinn í flokki 15 ára og yngri en óvænt tap í lokaumferðinni gerði það að verkum að hann varð hálfum vinningi á eftir norðlendingnum efnilega, Jóni Kristni Þorgeirssyni.
Glæsilegur árangur hjá Vigni sem bætir þar með enn einum titlinum í safnið en hann er núverandi Íslandsmeistari barna tíu ára og yngri.
Taflfélag Reykjavíkur óskar Vigni innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.
Gauti Páll Jónsson og Björn Hólm Birkisson höfnuðu síðan í 4.-6. sæti með 6 vinninga og Bárður Örn Birkisson, tvíburabróðir Björns, varð sjöundi með 5,5 vinning. Þá var félagi þeirra, Þorsteinn Magnússon, ekki langt undan í 9. sæti með 5 vinninga. Systir þeirra Björns og Bárðar, Freyja, stóð sig mjög vel og hafnaði í 21. sæti með 4 vinninga en hún var ein þriggja stúlkna sem tóku þátt í mótinu. Það þarf vart að taka fram að öll hafa þau sótt laugardagsæfingar félagsins af krafti undanfarin ár.
Það er einstaklega skemmtilegt að fylgjast með framgangi þessara ungu skákmanna og öll hafa þau bætt sig mikið að undanförnu. Nægir þar að nefna árangur Vignis á erlendri grundu sem og árangur þeirra á nýafstöðnu Haustmóti félagsins.
Hér má sjá heildarúrslit mótsins og þá tók Áslaug Kristinsdóttir myndir af mótahaldinu. Þá er að finna góða umfjöllun um mótið á skak.is.